„Ekki allt fengið með því að stækka“

Þjórsá rennur í gegn um Ásahrepp, um 250 íbúa sveitarfélag …
Þjórsá rennur í gegn um Ásahrepp, um 250 íbúa sveitarfélag á Suðurlandi,

„Okkur hugnast þetta ekki. Ef sveitarfélögin geta staðið við sínar skyldur þá finnst okkur hart að skikka þau til sameiningar,“ segir Ásta Berghildur Ólafsdóttir, oddviti hreppsnefndar Ásahrepps á Suðurlandi, um áætlun um lögfestingu lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. „Það er ekki endilega allt fengið með því að stækka.“

Samkvæmt áætluninni verður lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga 250 frá árinu 2022 en 1.000 frá árinu 2026.

1. janúar 2019 bjuggu 248 íbúar í Ásahreppi og þrátt fyrir að Ásta telji að nú séu íbúar orðnir fleiri en 250 sé ekki víst að svo verði enn árið 2022, enda sé íbúafjöldi mismunandi á milli ára.„Það er allavega að flytja til okkar fólk í sveitarfélagið núna,“ segir Ásta.

Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri í Ásahreppi, segist hafa efasemdir um aðferðafræðina. „Maður hefði viljað sjá skýrari forsendur fyrir þessum ákvæðum sem verið er að setja upp og veltir fyrir sér hvort þau séu raunhæf.“

„Ásahreppur hefur algjörlega staðið við allar sínar skyldur um grunnþjónustu og rúmlega það og jafnvel staðið sig betur en mörg önnur stærri sveitarfélög,“ segir Valtýr og veltir því fyrir sér hvort það séu aðrir þættir sem ekki séu nefndir sem þrýsti á áform um lágmarksíbúafjölda.

„Það eru ýmsar spurningar sem á eftir að skoða betur,“ segir Valtýr og býst við að það verði gert á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert