Full ástæða til að stíga á bremsuna

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir skipulagsbreytingarnar vissulega vera í skugga …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir skipulagsbreytingarnar vissulega vera í skugga rekstrarhalla Landspítalans en segir að þær séu þó ekki vegna hans. mbl.is/Hari

„Við höfum unnið að þessum breytingum lengi og það er einfaldlega ástæða til þess að breyta skipuritinu reglulega og láta það passa betur við starfsemina, segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is, en stjórnendur spítalans funduðu í morgun með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og kynntu fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.

Páll segir skipulagsbreytingarnar vissulega vera í skugga rekstrarhalla Landspítalans en segir að þær séu þó ekki vegna hans. Breytingarnar fela meðal annars í sér að byggja kjarna í kringum tvo mjög mikilvæga sjúkdómaflokka, hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein, í samræmi við heilbrigðisstefnu. Þá séu fimm ár þar til meðferðarkjarni spítalans verði tekinn í notkun sem þurfi að undirbúa.

Framkvæmdastjórum fækkað um nær helming

„Skipulagsbreytingarnar koma þannig ekki til vegna rekstrarhallans en hins vegar er það auðvitað þannig að þegar rekstrarvandi er til staðar, eins og nú er komið á daginn, geta skipulagsbreytingar hjálpað. Við erum að fækka framkvæmdastjórum því sem næst um helming og við erum að sameina sviðsskrifstofur úr níu niður í tvær til þrjár. Við náum þannig samlegð,“ segir hann og bætir við:

„Við erum í rauninni að efla klíníska þjónustu sem er markmiðið. Við sjáum það, að með því að vinna að breytingum á skipulagi og breyta því hvernig við vinnum þá getum við dregið úr sóun og það sparar. En það er ekki grunntilgangurinn.“

Forgangsatriði að verja þjónustustig spítalans

Spurður hvort frekari fækkun stöðugilda á Landspítalanum sé í kortunum segist Páll ekki geta svarað því eins og sakir standa. Varðandi rekstrarhalla spítalans segist hann heldur ekki geta svarað því enda sé það einfaldlega ekki ljóst hvernig árið fari endanlega og viðræður standi yfir við stjórnvöld varðandi ýmsa þætti þar.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

Þannig þurfi Landspítalinn að telja ýmsa bókhaldsþætti sér til halla sem síðar muni skila sér til baka á árinu. Fyrir vikið séu ýmis atriði talin upp í hálfsársuppgjöri spítalans sem hallatala sem muni, þegar búið verði að afgreiða þau, skila sér til baka. Þar að auki er hluti af fjármögnun spítalans breytilegur og tengdur afköstum, en afköst spítalans hafa aukist og því má búast við að að minnsta kosti hluti þess fjár komi til spítalans. „Þannig að það er ekki einfalt að svara þessu. En hallinn er til staðar og full ástæða til þess að stíga á bremsuna og við erum að vinna í því.“

Töluverðum hópi framkvæmdastjóra við Landspítalann hafi verið sagt upp störfum í júlí vegna áðurnefndra skipulagsbreytinga. „Varðandi aðrar uppsagnir vil ég ekki segja neitt um það á þessu stigi en það er alveg ljóst að okkar markmið er að verja þjónustustig spítalans. Það er forgangsatriði hvað svo sem við síðan gerum til þess að reyna að hagræða.“

Markmiðið að rekstur Landspítalans verði sjálfbær

Haft var eftir Haraldi Benediktssyni, varaformanni fjárlaganefndar Alþingis, á mbl.is fyrr í dag að við þriggja mánaða uppgjör Landspítalans hefði þegar verið ljóst að það stefndi í verulegan hallarekstur. Spurður hvort grípa hefði þurft til aðgerða fyrr segir Páll: „Við erum þegar farin að grípa til ýmissa aðgerða og stíga á bremsuna og stöðva verkefni sem voru í bígerð. Hversu mikil áhrif það hefur liggur hins vegar ekki alveg ljóst fyrir.“

Spurður um það hvernig hugmyndin sé að mæta þeim halla sem gera megi ráð fyrir að verði á rekstri Landspítalans á þessu ári segir Páll að markmiðið sé að reksturinn verði sjálfbær. Hvort það takist á þessu ári segir hann: „Það er markmiðið en ég þori ekki að segja hvort það takist á þessu ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert