Íslendingurinn, sem í dag var yfirbugaður þegar hann reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefa í flugvél Wizz Air á leið frá Ungverjalandi til Íslands, gæti átt yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsi auk fjársektar fyrir að hafa ekki fylgt fyrirmælum áhafnarinnar.
„Hann hefur nú stöðu grunaðs manns og mun verða ákærður fyrir brot gegn ellefta lið 14. greinar laga um flugsamgöngur,“ segir Victoria Hillveg, aðgerðastjóri lögreglunnar í Stavangri í Noregi, í samtali við mbl.is um íslenska ríkisborgarann á sjötugsaldri sem nú er í haldi norsku lögreglunnar.
Samkvæmt ákvæðum norsku laganna getur farþegi sem ekki hlýðir fyrirmælum áhafnar og hagar sér með óviðeigandi hætti átt yfir höfði sér 6 mánaða fangelsi, fjársekt eða hvort tveggja.
Spurð um tilkynningar um að um flugrán hafi verið að ræða, segir Hillveg slíkt af og frá. „Það hafa verið mörg símtöl í kjölfar þessarar fréttar, en við höfum ekki unnið með málið á þeim forsendum hjá okkur.“
„Vissulega sneri tilkynningin til okkar um að hann reyndi að komast inn í flugstjórnarklefa. Við höfum aðeins nálgast málið á grundvelli þess að um hafi verið að ræða óhlýðinn farþega um borð í flugvél og hann hafi verið yfirbugaður,“ segir aðgerðastjórinn. „Það er ekkert sem bendir til þess að viðkomandi hafi haft nokkurn ásetning um að ræna þessari flugvél,“ bætir hún við.
„Hann hefur sagt lögreglu að hann hafi tekið lyf og hann muni ekkert frá atvikinu. Við rannsökum málið út frá þeirri fullyrðingu,“ svarar Hillveg er hún er spurð um framgang rannsóknarinnar.
„Hann var skoðaður af lækni þegar hann var færður í fangaklefa og hann er nú í haldi lögreglunnar í Stavangri. Þá mun hann verða yfirheyrður í tengslum við brotin.“
Mál mannsins hefur ekki komið inn á borð borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins eða sendiráðs Íslands í Osló, segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.
Fréttin hefur verið uppfærð.