Ráðningar í lausar stöður leik- og grunnskólakennara ganga vel, ef marka má svör embættismanna í stærstu sveitarfélögum landsins. Sveitarfélög eru mörg hver í óðaönn að manna síðustu lausu stöðurnar, og er það mál manna að betur gangi nú en mörg undanfarin ár.
Sækja þarf um undanþágu til Kennarasambandsins ef ráða á ófaglærðan í starf grunnskólakennara, og er sú undanþága veitt því aðeins að reynt hafi verið til þrautar að fá faglærðan í starfið. Engin slík nefnd er til staðar í leikskólum, en faglærðir leikskólakennarar hafa engu að síður forgang í störf fram yfir ófaglærða.
Í Reykjavík liggja tölur um ráðningar ekki fyrir, en ráðgert er að leggja þær fyrir borgarráð á næstu dögum. Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi á skóla- og frístundasviði borgarinnar, segist telja að verkið gangi betur en áður, en ljóst er að verkefnið er ærið enda rekur Reykjavíkurborg 36 grunnskóla og fjölda leikskóla.
Fjöldanum er ekki fyrir að fara á Seltjarnarnesi, þar sem grunnskólar eru tveir og leikskólar reknir undir einum hatti.
Frá Mýrarhúsaskóla, sem heldur úti yngri bekkjum grunnskólans á Seltjarnarnesi, fást þær upplýsingar að búið sé að manna öll störf, en eitthvað vantar upp á í systurskólanum á Valhúsahæð.
Linda Udengard, framkvæmdastjóri fræðslusviðs Mosfellsbæjar, segir að vel gangi að ráða í grunnskóla bæjarins. Raunar séu tveir þegar komnir í gang, fullmannaðir. Erfiðara sé þó að manna leikskólana og segir hún Mosfellsbæ undir sömu sök seldan og önnur sveitarfélög. Hlutfall faglærðra af starfsmönnum leikskóla er aðeins um 30% á landinu öllu.
Akureyrarbær sker sig úr, en þar er hlutfall faglærðra rúmlega tvöfalt á við landsmeðaltalið.
Í Garðabæ eru 211 stöðugildi grunnskólakennara og eru þau öll fullmönnuð. Eitthvað vantar þó upp á í leikskólum og á frístundaheimilum.
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir gleði og eftirvæntingu ríkja meðal kennara fyrir nýju skólaári. Hún er nýkomin af ráðstefnu í Reykjanesbæ þar sem 300 kennarar mæltu sér mót og stilltu saman strengi fyrir veturinn.
Um áramót taka gildi breytingar á lögum um kennararéttindi og verða réttindi leik-, grunn- og framhaldsskólakennara þá sameinuð þannig að kennarar hafi starfsréttindi þvert á skólastigin þrjú. Þorgerður segir að í breytingunni felist viss áskorun en um leið sé jákvætt að búið sé að tryggja að þeir sem gera kennslu að ævistarfi geti nýtt þekkingu sína, reynslu og getu til kennslu á því stigi sem hentar þeim hverju sinni.
Sú nýlunda verður nú í vetur að kennaranemar á fimmta ári verða teknir inn í starfsnám í grunnskólum, og kann það að skýra að auðveldara sé að ráða í stöður kennara. Þorgerður segir það von kennara að starfsnemar verði, er fram líða stundir, ekki hugsaðir í stað kennara, heldur verði þeir þeim innan handar í skólastarfinu og læri þá af kennurunum.