Framkvæmdirnar við Hverfisgötu, frá bílastæðahúsinu við Traðarkot á móti Þjóðleikhúsinu og alveg niður að Stjórnarráði, koma að vonum illa við starfsemi í Safnahúsinu, og hefur þurft að loka fyrir heimsóknir einhverja daga í sumar vegna hávaða. Aðsóknin er minni en síðasta sumar.
„Þetta hefur verið mikill hávaði í allt sumar. Þetta verður örugglega frábært þegar þetta verður tilbúið en myndir þú vilja skoða safn í sífelldum hávaða, safn sem á að vera hugguleg upplifun?“ spyr Sigurlaug Hannesdóttir, verkefnastjóri Safnahússins, blaðamann mbl.is þegar hann kíkir við fyrir hádegi.
Fyrir utan standa yfir miklar framkvæmdir og aðgengi að húsinu er mjög takmarkað frá Hverfisgötunni. „Þetta hefur mikil áhrif á það hvernig fólk ratar til okkar. Aðgengismálin eru ekki góð í svona framkvæmdum og gestum hefur fækkað í sumar út af þessu,“ segir Sigurlaug.
Það er hægt að komast hjáleið af Ingólfsstræti og inn á stéttina utan við Safnahúsið en gangandi vegfarendur eru ekki að „villast“ mikið inn á safnið, þar sem enginn á leið af tilviljun um Hverfisgötuna á meðan hún er lokuð.
„Í heildina hefur þetta veruleg áhrif á starfsemina og starfsfólkið,“ segir Sigurlaug. Rekstur safnsins sé rekstur eftir allt, þótt ríkisrekinn sé hann. Sigurlaug segist skilja vel stöðu þeirra verslana sem hafa komið á framfæri kvörtunum vegna framkvæmdanna, sem hafa dregist. Þeim átti að ljúka í ágúst en þeim lýkur að líkindum ekki fyrr en í september.
Safnahúsið er hluti af Þjóðminjasafninu og hefur verið frá 2013. Ásamt því að geyma nokkurn safnkost, sem ferðamenn jafnt sem Íslendingar leggja leið sína að til að skoða, eru ýmis fundarrými til leigu í safninu á efri hæðum og einn stór viðburðasalur.