Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir að kjaraviðræður háskólamanna séu að skríða af stað eftir sumarleyfi.
Ekki hefur dregið til tíðinda eftir að viðræðurnar fóru aftur í gang en hún segist strax hafa áhyggjur af því að ekki verði hægt að standa við endurskoðaðar viðræðuáætlanir og ljúka kjarasamningum fyrir 15. september næstkomandi.
Í viðræðunum við ríkið er að störfum vinnuhópur um vaktavinnustéttir og styttingu vinnuviku þeirra. Einnig er að störfum hópur sem leitar leiða til að létta endurgreiðslubyrði námslána. Sá hópur skilar vonandi tillögum til ráðherra í ágústmánuði að sögn hennar. „BHM hefur árum saman barist fyrir því að LÍN-málin séu skoðuð af alvöru af hálfu stjórnvalda, m.a. vegna endurgreiðslubyrðinnar en líka vegna afnáms ábyrgðarmannakerfisins. Ég geri mér vonir um að tillögur þessa hóps verði uppbyggilegt innlegg í gerð kjarasamninga,“ segir hún í Morgunblaðinu í dag.