Íslensk-þýska hljómsveitin Ensemble Adapter, sem einbeitir sér að nútímatónlist innan klassískrar tónlistar, hefur vakið mikla athygli í Evrópu og víðar. Fyrir skömmu gekkst hún fyrir sérstökum tónleikum, Global Adapter, með kammerhópunum Distractfold frá Manchester á Englandi og Dal Niente frá Chicago í Bandaríkjunum.
Þann 1. september nk. verður seinni hluti tónleikanna á sama stað í Berlín, en þá með Ice Ensemble frá New York og Ensemble Offspring frá Ástralíu.
Að loknu námi í Hollandi fluttu hjónin Gunnhildur Einarsdóttir hörpuleikari og Matthias Engler slagverksleikari til Berlínar og stofnuðu Ensemble Adapter 2004. Þau fengu Kristjönu Helgadóttur flautuleikara og Ingólf Vilhjálmsson klarinettleikara til liðs við sig og eftir því sem verkefnum fjölgaði fluttu þau líka til höfuðborgar Þýskalands.
Gunnhildur segir að samvinnan með kammerhópunum hafi verið hugsuð til þess að læra hvert af öðru. „Samvinna er lykilorð í okkar vinnu og hefur verið rauður þráður í vinnunni frá byrjun,“ segir hún. Þau hafi enda alla tíð unnið mikið með tónskáldum að sköpun tónverka. „Það er gaman að vera hluti af ferlinu,“ heldur hún áfram og bendir á að mikill munur sé á tónlistarsenunni á milli landa. „Við höfum lært mikið af þessu.“
Sjá samtal við Gunnhildi í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.