Á meðan Klapparstígur frá Laugavegi upp að Grettisgötu er málaður í regnbogalitum núna meðan á Hinsegin dögum stendur í Reykjavík, hefur önnur, varanlegri ráðstöfun verið gerð í grenndinni: Skólavörðustígur hefur verið málaður hinsegin til frambúðar.
Í dag var gatan lokuð því málningin er enn að þorna frá því að hún var máluð á þriðjudaginn. Ferðamenn víluðu ekki fyrir sér að mynda nýja ásjónu götunnar og virtust hrifnir af breytingunum. Kannski smá súrir að fá ekki að ganga nýja fánann endilangan en það kemur að því.
Þetta er kaflinn frá mótum Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis og niður að Laugavegi, sem stundum hefur verið málaður áður við ýmis tilefni og hefur síðustu ár verið í þessum litum. Þar er lokað fyrir bílaumferð á sumrin en ekki í vetur, þannig að bílar munu keyra yfir fánann. Málningin er slitsterk því hún á að endast til frambúðar.
Það er viðeigandi að gatan hafi verið máluð á þessum tíma árs, enda Hinsegin dagar að ná hámarki um helgina með Gleðigöngunni. Þá verður hægt að rölta um hinsegin Skólavörðustíg.
Ákvörðun var tekin um að hátta þessu svona í borgarstjórn, einróma samþykkt, í byrjun júní, samanber færslu Lífar Magneudóttur um málið um þær mundir.
v
v