„Við vissum voða lítið hvað var að gerast fyrr en okkur var sagt að við værum að lenda í Noregi af öryggisástæðum. Þar tók á móti okkur lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar. Það var pínu óþægilegt,“ segir Júlíana Kristín Jóhannsdóttir, sem var um borð í flugvél Wizz air sem var á leið frá Ungverjalandi til Keflavíkur en þurfti að nauðlenda í Stavangri í Noregi vegna manns sem reyndi að brjótast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar.
Júlíana segir viðbúnaðinn sem tekið hafi við þeim í Stavangri hafa verið ansi ógvekjandi, enda hafi flestir farþegar ekki vitað hvað væri í gangi, hvort eitthvað væri að vélinni eða eitthvað alvarlegra en flugdólgur.
„Síðan kom í ljós að það var útaf þessum manni, sem ég varð sjálf ekki mikið vör við í vélinni af því ég var bara sofandi. Það gætu einhverjir sem sátu nær honum hafa lent í honum,“ útskýrir Júlíana.
Flugvélin var í Stavangri í um 40 mínútur áður en lagt var af stað áleiðis til Keflavíkur og segir Júlíana allt hafa gengið vel fyrir sig.
„Það voru allir mjög rólegir. Við sáum hvað flugþjónarnir voru rólegir og með allt ‚under control‘ og þá eru allir mjög rólegir,“ segir Júlíana að lokum.