Hvorki Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga né Læknafélag Íslands hefur fengið formlega kynningu á fyrirhuguðum skipuritsbreytingum á Landspítalanum.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, kynnti breytingarnar, sem gerðar eru í skugga rekstrarhalla spítalans, fyrir fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins á fundi í gær. Í breytingunum felst meðal annars að framkvæmdastjórum á Landspítalanum verður fækkað um nær helming og sviðsskrifsstofum úr níu í tvær til þrjár til þess að ná samlegð.
„Við vitum ekki nákvæmlega í hverju þetta felst en við erum búin að heyra í okkar félagsmönnum frá fundinum í gær og það sem við erum að hugsa um fyrst og fremst er að fyrirhugaðar breytingar muni ekki bitna á þjónustu og öryggi sjúklinganna, það er kjarni málsins,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við mbl.is.
Guðbjörg segir að skipulagsbreytingarnar sem talað hafi verið um séu ekkert annað en niðurskurður. „Það fer ekki saman að ætla að veita þjónustu af öryggi og miklum gæðum á sama tíma og mikill niðurskurður er. Þarna er hárfín lína á milli og við munum fylgjast með því.“
Páll sagði í samtali við mbl.is í gær að hann gæti ekki svarað því eins og sakir standa hvort frekari fækkun stöðugilda á Landspítalanum sé í kortunum. „Við verðum á varðbergi og viljum vera viss um að þetta snerti ekki félagsmenn okkar, enda vantar hjúkrunarfræðinga þannig að við munum mótmæla þeim uppsögnum ef þær verða,“ segir Guðbjörg.
Nýtt skipurit Landspítala verður væntanlega virkjað 1. október. Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að miðað við hversu stutt sé í innleiðinguna finndist honum eðlilegt að Læknafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og fleiri fagfélögum hefði verið boðið að sitja kynningarfundinn í gær.
„Breytingar á skipuriti geta haft mikil áhrif á öryggi og starfshætti á spítalanum og eðlilegt að það sé gert í nánu samstarfi, eða að félögunum sé haldið upplýstum á öllum stigum,“ segir Reynir í samtali við mbl.is. Hann segist þó hafa mætt góðu viðmóti frá stjórnendum Landspítalans og veit hann til þess að breytingarnar verða kynntar stjórn læknaráðs og hjúkrunarráðs á mánudag.
Guðbjörg bendir á að allar breytingar valda óróa hjá starfsmönnum. „Þetta er viðkvæm þjónusta og það þarf að vanda mjög til verka við breytingar. En breytingar geta líka verið af hinu góða og við skulum leyfa þeim að vinna betur úr þessum drögum. En eftir stendur að Landspítali er algjörlega undirfjármagnaður,“ segir hún.
mbl.is hefur leitað viðbragða Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við skipulagsbreytingunum en þær upplýsingar fengust hjá heilbrigðisráðuneytinu að ráðherra finnst ekki tímabært að tjá sig um fyrirhugaðar skipulagabreytingar þar sem þær eru ekki komnar formlega á borð ráðherra.