Breytingarnar kynntar almenningi í næstu viku

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir fyrirhugaðar skipulagsbreytingar hjá Landspítalanum hverfast …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir fyrirhugaðar skipulagsbreytingar hjá Landspítalanum hverfast um breyttar þarfir sjúklinga. mbl.is/Golli

Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á Landspítalanum verða kynntar almenningi í næstu viku, þegar kynningu á breyttu skipulagi spítalans hefur verið kynnt fagráðum. 

Frá þessu greinir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í vikulegum forstjórapistli sínum. Páll segir breytingarnar hverfast um breyttar þarfir sjúklinga. „Stórar áskoranir eru framundan í heilbrigðisþjónustu og framfarir í heilbrigðisvísindum krefjast þess að hryggjarstykki íslenskrar heilbrigðisþjónustu, Landspítali, móti skipulag starfseminnar þannig að falli að meginverkefnum okkar, með hliðsjón af heilbrigðisstefnu,“ skrifar Páll meðal annars. 

Páll kynnti breytingarnar, sem gerðar eru í skugga rekstrarhalla spítalans, fyrir fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins á fundi í gær. Formenn Læknafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa gert athugasemdir við að félögin hafi ekki verið upplýst um breytingarnar. 

Páll segir að á fundinum í gær hafi komið fram  mjög gagnlegar ábendingar og tillögur sem unnið verður áfram með. „Í næstu viku mun ég kynna fagráðum vinnuna sem fram hefur farið og má því búast við almennri kynningu undir lok næstu viku,“ segir Páll í pistli sínum.

Tvær bylgjur breytinga 

Segir hann að um tvær bylgjur breytinga sé að ræða. Sú fyrri felst í umtalsverðum breytingum á framkvæmdastjórn spítalans þar sem framkvæmdastjórum verður fækkað um tæpan helming. 

Stærstu breytingarnar eru þær að sjö klínísk svið, rekstrarsvið og skrifstofa þróunar verða þrjú svið sem öll hafa klínískar megináherslur. Samhliða þessu fækkar sviðsskrifstofum úr 11 í 2-3 og mannauðs- og fjármálasvið breytast í skrifstofu mannauðsmála og skrifstofu fjármála. Framkvæmdastjórar verða því 7 í stað 13 áður.  

Síðari bylgja breytinganna, sem áhrif mun hafa á fleiri starfsmenn með beinum hætti, felst í spennandi þróun nýrra skipulagseininga, að sögn Páls.

Á næstu vikum verða þessar einingar þróaðar áfram og gert er ráð fyrir að hefja undirbúning að ráðningu forstöðumanna síðar í haust. 

„Breytingar geta tekið mikið á og þeim fylgir óvissa. Þetta erum við öll meðvituð um og ég veit að mörg ykkar eru óviss um fyrirkomulag ykkar eininga. Við gerum ráð fyrir að innleiðingartímabil nýs heildarskipulags sé fram á næsta ár og staðan verður markvisst metin og skipulag bætt ef þess er þörf,“ skrifar Páll að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka