Leit að belgíska ferðamanninum sem talið er að hafi fallið útbyrðis úr kajak á laugardag verður haldið áfram í dag. Hefur leitarsvæðið verið þrengt og er nú horft sérstaklega til suðurhluta vatnsins.
Kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunni, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Landsbjörg munu vera við leit í vatninu í dag, en eingöngu verður leitað með köfurum.
Aðstæður í vatninu eru erfiðar. Vatnið er 85 ferkílómetrar, kalt og djúpt. Það gerir leitarmönnum erfiðara fyrir að ekki er vitað hvar nákvæmlega maðurinn setti kajak sinn á flot. Á vef RÚV kemur fram að ljósmynd sem maðurinn sendi móður sinni skömmu fyrir bátsferðina gefi vísbendingar um hvaðan hann fór út á vatnið. Hefur ljósmyndin auk farsímagagna hjálpað til við að þrengja leitarsvæðið.
Hingað til hefur verið leitað út frá því að maðurinn gæti hafa flotið upp með botnstraumi. Sú leit hefur þó ekki borið árangur en bátur og bakpoki mannsins fundust syðst í Þingvallavatni, við Villingavatn.
Lögregla telur „yfirgnæfandi líkur“ vera á því að maðurinn hafi fallið útbyrðis, en strekkingsvindur hefur verið á svæðinu og aðstæður til siglinga ekki verið góðar.
Að sögn belgískra fjölmiðla er maðurinn hinn 41 árs gamli Bjorn Debecker, verkfræðingur og tveggja barna faðir.