Mennirnir tveir sem handteknir voru við komu Norrænu til Seyðisfjarðar 1. ágúst, grunaðir um að hafa flutt verulegt magn af fíkniefnum til landsins, hafa verið úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald að kröfu lögreglustjórans á Austurlandi.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp þennan úrskurð í dag, en mennirnir voru fluttir suður skömmu eftir að þeir voru handteknir. Samkvæmt heimildum mbl.is fundust 45 kíló af sterkum fíkniefnum, kókaíni og amfetamíni, við leit í bifreið mannanna.
Lögreglan á Austurlandi segir í tilkynningu að rannsókn málsins sé mjög viðamikil, en henni miði vel. Rannsóknin fer fram í samstarfi við tollgæsluna og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og við erlend lögreglulið.