Ekki mitt að dæma

Halla Bergþóra vill að þjóðfélagið fari að hugsa betur um …
Halla Bergþóra vill að þjóðfélagið fari að hugsa betur um ungt fólk sem á í fíkniefnavanda og er jafnvel líka með geðsjúkdóma, en það fólk gistir oft fangaklefa þar sem það á ekki heima. Henni er umhugað um fólk í viðkvæmri stöðu. mbl.is/Ásdís

Það er nota­legt að koma inn í eld­húsið heima hjá lög­reglu­stjór­an­um á Ak­ur­eyri. Halla Bergþóra Björns­dótt­ir býður upp á kaffi og eðal­kon­fekt frá Vín­ar­borg sem er kær­komið eft­ir bíl­ferðina norður til Ak­ur­eyr­ar. Sól­in skín norðan heiða þenn­an fína sum­ar­dag á um­dæmið henn­ar Höllu, en það er reynd­ar geysi­stórt og nær lengst inn á há­lendi. Halla er nýorðin fimm­tug og er á há­tindi fer­ils­ins en hún hef­ur komið víða við á leið sinni í lög­reglu­stjóra­stól­inn. Sveita­stúlk­an frá Laxa­mýri er aft­ur kom­in heim á æsku­slóðir, svo að segja, eft­ir ára­tugi í höfuðborg­inni.

Sveita­stúlk­an í borg­inni

„Ég er frá Laxa­mýri í Suður-Þing­eyj­ar­sýslu og ólst þar upp,“ seg­ir Halla. „Þarna var fé­lags­bú bræðra; pabbi var með kýrn­ar og bróðir hans með kind­urn­ar. Ég var mikið með pabba í fjós­inu og vann sveita­störf frá því að ég man eft­ir mér,“ seg­ir Halla en á Laxa­mýri búa enn móðir henn­ar og bróðir sem er for­stjóri Heil­brigðis­stofn­un­ar Norður­lands.

„Ég fékk mjög gott upp­eldi og það var ynd­is­legt að al­ast upp í sveit.“

Halla sleit þarna barns­skón­um; gekk í sveita­skól­ann Hafra­lækj­ar­skóla og á Húsa­vík og endaði svo í Mennta­skól­an­um við Sund. Það má því segja að hún hafi flutt að heim­an sex­tán ára.

„Þá sá maður hversu mik­ill lúx­us það var að búa í for­eldra­hús­um; þarna þurfti ég að leigja íbúð og kaupa í mat­inn en þetta var auðvitað góður skóli og á meðan vin­kon­urn­ar fóru til Ibiza á sumr­in þurfti ég að fara heim í sveit­ina að vinna til að eiga fyr­ir leig­unni næsta vet­ur,“ seg­ir hún og bæt­ir við að sunn­lensku krakk­arn­ir hafi tekið sér vel.

Fyrsta kven­lögg­an á Húsa­vík

Eft­ir mennta­skól­ann ákvað Halla að taka sér árs­leyfi frá námi og fór að vinna hjá Alþýðublaðinu og Press­unni. „Ég var í öllu; á sím­an­um, út­búa reikn­inga, sjá um blaðburðarfólkið og skrifa smá­veg­is um hvað væri á döf­inni um helg­ina. Þetta var mjög skemmti­leg­ur vet­ur,“ seg­ir hún en seg­ist samt sem áður ekki hafa viljað halda áfram á fjöl­miðlabraut­inni.

„Ég var búin að ákveða að verða annaðhvort ljós­móðir eða lög­fræðing­ur. Það er ekki mjög líkt,“ seg­ir hún og hlær.

„Ég valdi lög­fræðina og ég held það hafi verið vegna rétt­lætis­kennd­ar. Í mennta­skóla hafði ég tekið lög­fræði í valáfanga og fannst það skemmti­legt,“ seg­ir Halla sem hóf nám í lög­fræði eft­ir árið í fjöl­miðlum.

Þegar kom að sum­ar­vinnu leitaði hug­ur­inn norður.

„Ég sótti um að leysa af í lög­regl­unni á Húsa­vík og var þá fyrsta kon­an sem vann sem lög­reglumaður þar í bæ. Ég var þar í þrjú sum­ur í af­leys­ing­um og var al­mennt tekið mjög vel. Það var kannski einn og einn í sam­fé­lag­inu sem fannst ég ekki eiga heima þarna sem kona,“ seg­ir hún og hlær.

„Ég var til dæm­is spurð hvernig ég sem kona ætti að ráða við drukkna menn.“

Halla seg­ist hafa lært mikið þessi sum­ur í lög­regl­unni og greini­legt að áhug­inn á lög­gæslu var kviknaður.

„Það var mjög þrosk­andi og margt sem kom á óvart. Það var mikið að gera enda stórt um­dæmi. Ég lenti í öllu; um­ferðarslys­um, heim­il­isof­beldi og slags­mál­um. Svo auðvitað að aðstoða fólk,“ seg­ir hún og seg­ir starfið hafa heillað sig.

„Það er svo margt gott sem ger­ist í leiðinni og maður finn­ur til­gang með starf­inu. Lög­reglu­starfið er mjög mann­legt starf,“ seg­ir Halla.

Heils­ar góðkunn­ingj­um í bíó

Gekkstu með lög­reglu­stjóra­drauma í mag­an­um?

„Nei, ekki beint þá en mig langaði að verða sýslumaður. Svo í hrun­inu, árið 2009, þegar var stofnað embætti sér­staks sak­sókn­ara, fór Ólaf­ur Hauks­son, sem hafði verið sýslumaður á Akra­nesi, í það embætti og ég var sett til bráðabirgða í sýslu­mann­sembættið þar, sem var þá líka lög­reglu­stjóra­embættið,“ seg­ir Halla og gegndi hún því starfi í sex ár.

„Ég bjó samt áfram í Reykja­vík og keyrði á milli. Mætti Ólafi í göng­un­um,“ seg­ir hún og hlær.

Halla naut sín vel á Akra­nesi og kynnt­ist starfi sýslu­manns og lög­reglu­stjóra.

„Þetta var frá­bær tími. Það var mjög gam­an að vera á Akra­nesi en ég hafði eig­in­lega aldrei farið þangað áður. Þar er in­dælt fólk, upp til hópa, en svo þekkti maður líka góðkunn­ingj­ana. Ég var með öll ákæru­mál­in þannig að ég þekkti þá menn ágæt­lega. Ef ég fór í bíó var ég stund­um að heilsa ung­um strák­um og átti erfitt með að segja mann­in­um mín­um hvernig ég þekkti þessa ungu menn, enda bund­in trúnaði,“ seg­ir hún og hlær.

„Það er dá­lítið skrítið að þótt maður sé að ákæra menn þá heilsa þeir manni oft­ast mjög al­menni­lega.

Að fara í mál við yf­ir­mann­inn

Á þess­um tíma sótti ég um sýslu­mann­sembættið á Húsa­vík en fékk ekki. Ég fór í mál og það fór fyr­ir kær­u­nefnd jafn­rétt­is­mála og ég vann málið. Það var karl­maður sem sótti á móti en sá var þá sett­ur sýslumaður þar. Það var hringt í mig og ég spurð hvort ég væri ekki til í að aft­ur­kalla um­sókn­ina af því fólki fannst það ein­fald­ast. En ég vildi það ekki. Hann hélt starf­inu en ég fékk ein­hverj­ar miska­bæt­ur. Þetta voru í raun eng­ar bæt­ur, en fyr­ir mér var þetta meira prinsipp­mál,“ seg­ir hún og seg­ir þetta hafa tekið á.

„Það var erfitt að þurfa að fara í mál við yf­ir­mann minn hjá dóms­málaráðuneyt­inu, Ögmund Jónas­son, af því ég var holl mín­um vinnu­veit­end­um. Hann hafði skipað í embættið, þannig að það var frek­ar skrítið,“ seg­ir Halla og seg­ir það hafa verið klárt mál að hún hafi verið hæf­ari um­sækj­and­inn.

„Rétt skal vera rétt. Þetta var góð lífs­reynsla og þrosk­andi. En ég upp­lifði aldrei neina reiði og ég fann fyr­ir mikl­um stuðningi. En sum­ir nefndu við mig hvort ég þyrfti nokkuð að vera með þetta vesen,“ seg­ir hún og hlær.

Að ná til þolenda of­beld­is

Hvaða vanda­mál fyr­ir­finn­ast hér?

„Það eru ná­kvæm­lega sömu vanda­mál og í höfðuborg­inni, bara í minna mæli. Allt sem fylg­ir mann­legri hegðun. Lík­ams­árás­ir, kyn­ferðis­brot, fíkni­efna­mál og heim­il­isof­beldi. Sam­fé­lagið hér er minna og hvað varðar heim­il­isof­beldi þá held ég að fólk sæki sér síður hjálp,“ seg­ir Halla og seg­ir ekki hafa gengið nægi­lega vel að ná til þess­ara þolenda.

„Við vor­um að opna Bjarma­hlíð núna í apríl, sem er miðstöð fyr­ir þolend­ur of­beld­is, og erum að von­ast til að ná til fólks, en það gæti tekið tíma. Bjarma­hlíð er byggð að banda­rískri fyr­ir­mynd en ég hef lengi velt fyr­ir mér hvernig við gæt­um mætt þess­ari þörf. Ég vil ná til fólks í viðkvæmri stöðu,“ seg­ir Halla og seg­ist hafa lagt áherslu á þessi mál­efni síðan hún tók við. Bjarma­hlíð er sam­starf­verk­efni margra aðila; rík­is­stofn­ana, ráðuneyta, sveit­ar­fé­lags og frjálsra fé­laga­sam­taka. Þetta verk­efni sýn­ir að þegar aðilar sam­eina krafta sína er hægt að gera svo miklu meira og bet­ur fyr­ir þá sem á þurfa að halda.

„Marg­ir eiga erfitt með að ganga inn á lög­reglu­stöð og við sjá­um fólk koma í Bjarma­hlíð sem hefði kannski aldrei komið til okk­ar,“ seg­ir hún.

„Svo þurf­um við að fara að hugsa bet­ur um ungt fólk sem á í fíkni­efna­vanda og er jafn­vel líka með geðsjúk­dóma. Við erum dá­lítið aft­ar­lega á mer­inni hérna á Íslandi varðandi þessi mál og marg­ir að hugsa um að það þurfi að gera bet­ur. Það eru of fá al­menni­leg úrræði hér en oft end­ar fólk í þess­um vanda í klefa hjá okk­ur þar sem við telj­um að það eigi ekki heima. Við erum byrjuð að skoða hug­mynd­ir um hvað sé hægt að gera. Sjúkra­húsið hér á Ak­ur­eyri er ekki með lokaða ör­ygg­is­deild til að hýsa fólk sem er hættu­legt sjálfu sér og öðrum og þarf þá að senda það suður. Fólk þarf þá að bíða hjá okk­ur og sama gild­ir um ungt fólk í fíkni­vanda,“ seg­ir Halla og nefn­ir að í Bretlandi hafi mikið áunn­ist í þess­um mál­um og vill hún gjarn­an koma á verklagi sem virk­ar.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra segir starfið afar gefandi en hún …
Lög­reglu­stjór­inn á Norður­landi eystra seg­ir starfið afar gef­andi en hún hef­ur lengi haft áhuga á lög­gæslu­mál­um. mbl.is/Á​sdís

Vilj­um þjón­usta fólk

„Það er heil­mikið búið að ger­ast hér eft­ir að ég tók við. Það er svo margt hægt að gera ef maður hef­ur svona mik­inn áhuga á öllu sem teng­ist lög­gæslu. Til að ná ár­angri er mik­il­vægt að hafa gott og hæft starfs­fólk en einnig að vera í góðu sam­starfi al­mennt. Ég bý svo vel að það er til staðar,“ seg­ir hún. 

„Við vilj­um þjón­usta fólk og vera nær því. Lög­regl­an er fyr­ir fólkið, eitt, tvö og þrjú. Við erum til staðar fyr­ir fólkið sem er hérna, bæði fólkið sem býr hér og hina sem eiga leið í gegn. Það er grund­vall­ar­atriðið; ekki að vera valda­stofn­un, held­ur að þjóna fólki,“ seg­ir Halla og bæt­ir við: „Ég vil mæta öll­um á jafn­rétt­is­grund­velli. Maður þarf að sýna öll­um virðingu. Það er ekki mitt að dæma, það eru aðrir sem sjá um það.“

Er alltaf hægt að ná í lög­reglu­stjór­ann?

„Já, það er alltaf hægt.“

Ítar­legt viðtal við Höllu Bergþóru er í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert