Rauðberjalyng hefur fundist víðar um land en áður en tegundin hefur nú numið land í Munaðarnesi í Borgarfirði og víðar í héraðinu. Þetta kemur fram á vefsíðu Skógræktarinnar.
Rauðber hafa hingað til fundist aðallega á Austurlandi og við Öxarfjörð og hafa aðeins á síðari árum verið talin til flóru Íslands. Berin eru mjög algeng í Noregi, þar sem þau þekkjast undir nafninu tyttebær, og í Svíþjóð, þar sem þau kallast lingon, en í Skandinavíu hafa berin verið vinsæl til matargerðar. Þetta staðfestir grasafræðingurinn Hörður Kristinsson. Segist hann vita til þess að rauðberjalyng hafi verið gróðursett fyrir nokkrum árum bæði á Suður- og Vesturlandi en telur líklegt að fuglar hafi hjálpað til við dreifingu berjanna.
Segir hann hitastigið ekki hafa mikil áhrif á berjalyngið; dreifingin skipti mestu og að beit sé ekki of nærgöngul. „Hitinn kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni en það eru ekki mikil áhrif komin fram ennþá. Það tekur langan tíma fyrir plönturnar að breiðast út af þeim ástæðum,“ segir Hörður í Morgunblaðinu í dag. Segir hann að rauðberjalyngið dreifist hægt ef marka megi hversu langur tími líði milli nýrra fundarstaða.