„Mér blöskraði þetta þegar ég gekk þarna fram hjá um daginn. Hann er bara orðinn viðbjóðslegur, bíllinn, alveg viðbjóðslegur,“ segir Ólafur Björn Sverrisson, tiltölulega nýútskrifaður MR-ingur og fyrrverandi inspector automobilum, í samtali við mbl.is.
Það er eyðibíll, eða draugabíll eins og Ólafur kallar hann, búinn að hreiðra um sig á nemendabílastæði MR og það eru í sjálfu sér ekki fréttir: Hann hefur verið þarna „allavega frá árinu 2017,“ segir Ólafur. Fréttirnar munu vera þær, að hann sé þarna enn þá.
Ólafur var embættisárið 2018-2019 sjálfskipaður inspector automobilum, bílastæðavörður, ásamt vini sínum Sigurbergi Hákonarsyni, sem einnig útskrifaðist í vor. Þeir höfðu yfirumsjón með nemendabílastæðinu það árið og höfðu það hlutverk að miðla málum í skipulögðu óreiðunni sem þar ríkir.
„Við höfum fylgst með þessum bíl grotna niður þarna í beinni. Í fyrstu, sennilega haustið 2017, fattaði maður náttúrulega ekki að þetta væri munaðarlaus draugabíll, eins og síðar kom á daginn. Smám saman fór maður að veita þessu athygli, að hann færðist ekki,“ segir Ólafur.
Hver skildi eftir þennan ógeðslega bíl? „Enga hugmynd. Eftir að rúðurnar brotnuðu allar smám saman gat maður kíkt inn í bílinn og þá fundum við einhver skjöl og svoleiðis inn í bílnum. En þar var ekkert nafn, engin leið að finna út hver bæri ábyrgð á bíldruslunni,“ segir Ólafur.
Það mætti því halda, segir hann, að einhver hafi bara viljað losa sig við bílinn og valið grey nemendabílastæðið í MR sem vettvang til þess. Þar er bætt gráu ofan á svart enda bílastæðið alræmt fyrir að vera kássa.
„Þegar við mættum til skóla síðasta haust vorum við fullir eldmóðs og ætluðum að láta færa bílinn. En þú veist hvernig haustið og veturinn fer með mann. Við nenntum ekkert að pæla almennilega í þessu og gerðum eiginlega ekki neitt,“ segir Ólafur. Svo leið og beið og nú fara nýir MR-ingar að mæta í skólann með haustinu, eyðibíllinn enn á sínum stað, ógeðslegari með deginum hverjum.
„Það þýðir þó ekki að við höfum ekki leitast við að gera aðrar úrbætur á kerfinu sem þarna ríkir. Við höfðum stórtæk áform um nýtt sektarkerfi, þar sem fólk yrði að hafa plagg í glugganum á bílnum, og ef það sinnti ekki kallinu þegar það væri beðið um að færa bílinn fengi það sekt,“ segir Ólafur. Vissulega varð ekkert af þeim áformum, frekar en framangreindum.
„En félagslífið var sterkt hjá okkur bílastæðavörðunum og við gættum þess að vera aðgengilegir fyrir nemendur, þannig að þeir gætu nálgast okkur með hvers kyns vandamál tengd bílastæðinu,“ segir Ólafur. Með það í huga voru haldnir opnir bílastæðafundir hvern föstudag eftir skóla á The Drunk Rabbit við Austurstræti, þar sem fólk gat rætt áhyggjur sínar.
Ólafur kveðst ekki vita hvort einhver hafi verið kjörinn í embættið í nemendafélagskosningunum í vor, sem muni þá sinna því í haust. Enginn bauð sig fram vorið 2018, sem varð eins og fram hefur komið síðar til þess að þeim embættisbræðrum Ólafi og Sigurbergi rann blóðið til skyldunnar þegar þeir sáu hvernig komið var fyrir bílastæðinu. Ólafur vonar að sporgöngumenn hans takist óhræddir á hendur þetta ærna verkefni og leysi það með snatri, enda þjóðþrifamál.