Það var árið 1950 að íslensk fjölskylda flutti til Humlebæk í glænýtt raðhús í nýju hverfi. Elst af börnunum var Ása, þá þrettán ára. Í næsta raðhúsi bjó dönsk fjölskylda og vildi svo skemmtilega til að þar bjuggu þrjú börn sem voru á svipuðu reki og íslensku börnin.
„Við fluttum þangað á sama tíma; hún frá Íslandi og ég frá Kaupmannahöfn,“ segir Anne Lise. „Við vorum eins og ein stór fjölskylda, öll saman. Bróðir minn lék við bróður hennar og litli bróðir við litla bróður hennar,“ segir hún þar sem hún situr í stofu vinkonu sinnar í Mosfellsbænum. Hún er nú loks mætt til Íslands, í fyrsta skiptið, en vinskapur þeirra er þeim báðum dýrmætur.
Ása og fjölskylda hennar fluttu aftur til Íslands þegar hún var sextán ára. „Það var hræðilegt,“ segir Anne Lise. „Við vorum alltaf tvær saman. Það var hræðilegt að kveðjast; ég grét mikið,“ segir Anne Lise og Ása tekur undir það. „Ég vildi ekki flytja aftur heim. Við vorum báðar mjög leiðar.“
Við tóku mörg ár þar sem sendibréfin fóru á milli landa. Vinkonurnar urðu fullorðnar og trúðu hvor annarri fyrir gleði og sorgum í gegnum bréfin. Smátt og smátt minnkuðu bréfaskriftir og á tímabili duttu þær alveg niður.
Loksins, nærri sjö áratugum eftir fyrstu kynnin, ákvað Anne Lise að koma til Íslands. „Það var einn dag að ég sat og gramsaði í gömlu dóti að ég fann öll gömlu bréfin frá Ásu. Þá hugsaði ég: Guð minn góður, ég verð að hitta hana áður en við deyjum,“ segir Anne Lise.
„Hún hefur sagt á hverju ári: Ég kem á næsta ári. Hún sagði mér í maí að hún myndi koma í sumar en ég hugsaði að hún væri búin að segja það svo oft að ég tryði því ekki alveg. Svo var ég ekkert að hugsa út í það þegar hún hefur samband núna í ágúst og segist vera að hugsa um að koma; hvort það sé ekki í lagi. Ég sagði jú, og hún kom bara daginn eftir!“ segir Ása og hlær.
„Ég hafði varla tíma til að laga til, ég náði bara að búa um rúmið.“
Var þetta bara skyndiákvörðun eftir öll þessi ár, að koma til Íslands með dags fyrirvara?
„Já! Og miðinn var á tvöföldu verði!“ segir Anne Lise og skellihlær.
Hún dvaldi á Íslandi í fimm daga. „Þetta hefur verið frábært og landið er svo fallegt en það hefur verið svo kalt. Svo vindasamt. En ég hef séð mikið og skemmt mér vel. Þetta er svo framandi fyrir mig, allt öðruvísi en Danmörk; hún er flöt eins og pönnukaka,“ segir hún og hlær. Hún er staðráðin í að koma aftur sem fyrst.
„Ég vildi endilega að hún myndi sjá Ísland,“ segir Ása og hafa þær stöllur farið gullna hringinn og upp í Borgarfjörð á síðustu dögum.
Ása segir þær hafa átt góðar stundir saman, talað mikið og rifjað upp gamla tíma. „Við höfum talað út í eitt,“ segir Anne Lise.
Vinkonurnar eru í dag 82 og 83 ára gamlar. „Tvær ungar píur,“ segja þær og hlæja.
Viðtalið í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.