Okjökull kvaddur með viðhöfn

Horft yfir Okið, fönnina sem þar til fyrir fáum árum …
Horft yfir Okið, fönnina sem þar til fyrir fáum árum var hægt að kalla jökul. Minningarathöfn fer fram þar í dag, um jökul sem var. mbl.is/RAX

„Í dag kveðjum við form­lega jök­ul­inn Ok en hann er fyrst­ur ís­lenskra jökla til að hverfa á tím­um lofts­lags­breyt­inga. Lands­lagið er vissu­lega enn þá fal­legt, en feg­urðin dvín­ar í aug­um okk­ar sem vit­um hvað var þarna áður og hvers vegna það er horfið.“

Svo skrif­ar Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra í færslu á Face­book, en laust fyr­ir há­degi hófst at­höfn á Oki í Kalda­dal í Borg­ar­f­irði þar sem minn­ing­ar­skjöld­ur um jök­ul­inn horfna var af­hjúpaður, en Ok­jök­ull hætti að vera jök­ull sam­kvæmt skil­grein­ing­um vís­inda­manna árið 2014.

Um eitt hundrað manns eru viðstödd, en af­hjúp­un skjald­ar­ins hef­ur vakið heims­at­hygli und­an­farið og beint aug­um að þeirri staðreynd að á Íslandi er jök­u­lís­inn að hverfa.

For­sæt­is­ráðherra seg­ir að í dag rís­um við upp, „efld­ari en nokkru sinni í bar­átt­unni fyr­ir nátt­úr­unni.“ „Við stönd­um frammi fyr­ir for­dæma­lausri stöðu. Í dag er tími aðgerða því af­leiðing­ar ham­fara­hlýn­un­ar blasa við um heim all­an. Hita­bylgj­ur, flóð, þurrk­ar og öfga­kennd­ar sveifl­ur eru birt­ing­ar­mynd­in og valda neyð og hörm­ung­um,“ skif­ar Katrín, sem hef­ur í vik­unni ritað grein­ar um hvarf jök­uls­ins og nauðsyn þess að tak­ast á við lofts­lags­breyt­ing­ar, meðal ann­ars í New York Times.

„Við verðum að gera þetta sam­an: fyr­ir jökl­ana, fyr­ir framtíðina og fyr­ir okk­ur sjálf,“ skrif­ar for­sæt­is­ráðherra í dag.

Cymene Howe, Dominic Boyer og Andri Snær Magnason með minningarskjöldinn …
Cy­mene Howe, Dom­inic Boyer og Andri Snær Magna­son með minn­ing­ar­skjöld­inn í vik­unni. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Að upp­setn­ingu skjald­ar­ins á Oki standa Cy­mene Howe og Dom­inic Boyer, mann­fræðing­ar og rann­sókna­fólk við Rice-há­skóla í Texas í Banda­ríkj­un­um. Einnig koma að mál­um Odd­ur Sig­urðsson jökla­fræðing­ur og Andri Snær Magna­son sem er höf­und­ur texta á minn­ing­ar­skild­in­um sem ber yf­ir­skrift­ina Bréf til framtíðar.

Í texta Andra Snæs á skild­in­um seg­ir að bú­ast megi við að á næstu 200 árum fari all­ir jökl­ar sömu leið og Ok­jök­ull. Hvarf hans geti verið upp­hafið að öðru og meira.

Færslu Katrín­ar má lesa í heild sinni hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert