Samband Íslands og Þýskalands

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er væntanleg til landsins.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er væntanleg til landsins. AFP

„Þessar heimsóknir leiðtoga Þýskalands leiða hugann að margþættu sambandi ríkjanna tveggja, Íslands og Þýskalands, sem á sér aldalanga sögu,“ skrifar Svana Helen Björnsdóttir í tilefni af komu Angelu Merkel Þýskalandskanslara til Íslands á morgun.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 17. ágúst og er hér birt í heild sinni.

„Það gerist ekki á hverjum degi að leiðtogar Þýskalands sæki Ísland heim. Í júní sl. heimsótti okkur forseti Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, ásamt eiginkonu sinni og nú í ágúst er von á kanslara Þýskalands, Angelu Merkel.

Þessar heimsóknir leiðtoga Þýskalands leiða hugann að margþættu sambandi ríkjanna tveggja, Íslands og Þýskalands, sem á sér aldalanga sögu.

Þýska öldin á Íslandi

Þýska öldin er það tímabil nefnt í Íslandssögunni þegar þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga. Þjóðverjar stunduðu á þessum tíma einnig veiðar við Íslandsstrendur og gerðu út frá íslenskum verstöðvum.

Elsta heimild um siglingu þýskra kaupmanna til Íslands er frá 1432. Um 1470 urðu komur kaupmannanna árvissar og er þýska öldin talin hefjast um það leyti. Hún stóð svo alla 16. öldina, eða þar til einokunarverslun danskra kaupmanna var komið á í upphafi 17. aldar. Þýsku kaupmennirnir tilheyrðu miklu verslunarsambandi sem kallaðist Hansasambandið og réð nær allri verslun í Norður-Evrópu og við Eystrasalt. Þeir Hansakaupmenn sem hingað sigldu voru flestir frá Lübeck, Hamborg og Bremen. Tengsl Íslendinga við Þýskaland voru töluverð á þessum tíma og ungir Íslendingar byrjuðu þá strax að leggja leið sína til Þýskalands til náms.

Íslenskir námsmenn í Þýskalandi

Þýskaland hefur fóstrað margan Íslendinginn um lengri eða skemmri tíma, þar á meðal undirritaða. Menntaskólaþýskan opnaði mér, eins og mörgum öðrum Íslendingum, leið í þýska háskóla og þýskt samfélag. Hér ber að hafa í huga að þýskt málsvæði er mun stærra en Þýskaland eitt, það nær m.a. einnig til Austurríkis og Sviss og 130 milljónir manna í Evrópu tala þýsku sem móðurmál eða sitt annað tungumál. Þýska er útbreiddasta tungan innan Evrópusambandsins. Hér á landi eru nú færri sem velja þýsku í menntaskóla en áður – og því e.t.v. færri sem ná að kynnast þýskri menningu í allri sinni dýpt og fjölbreytileika.

Í Þýskalandi hafa íslenskir námsmenn lagt stund á ólíkar greinar, s.s. arkitektúr, guðfræði, íþróttafræði, hves kyns raun-, félags- og hugvísindi, kvikmyndagerð og -leik, tónlist og verkfræði. Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) var Íslendingum gert enn auðveldara en áður að dvelja í Þýskalandi við nám og störf.

Siðbótin

Svana Helen Björnsdóttir nam verkfræði í Þýskalandi og er nú …
Svana Helen Björnsdóttir nam verkfræði í Þýskalandi og er nú framkvæmdastjóri hjá Klöppum grænum lausnum hf. og formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Saga Þýskalands er samtvinnuð sögu Evrópu. Saga siðbótarinnar á 16. öld hefst í Þýskalandi og miðað er við það þegar Marteinn Lúther festi skjal með 95 greinum á kirkjuhurðina í Wittenberg árið 1517. Lúther vildi siðbót innan kirkjunnar og barðist m.a. gegn sölu aflátsbréfa sem notuð voru til að fjármagna framkvæmdir í Róm. Aðrir siðbótarmenn eins og Zwingli og Kalvín fylgdu fordæmi Lúthers. Einn samverkamanna hans, Jóhannes Bugenhagen, lagði grunn að kirkjuskipan Íslands, sem samþykkt var á alþingi 1541. Siðbótarmenn réðust gegn mörgum af grundvallarkenningum kaþólsku kirkjunnar eins og trúnni á hreinsunareldinn, tilbeiðslu Maríu og trúnni á milligöngu dýrlinga, flestum sakramentunum, kröfunni um skírlífi presta og valdi páfa. Af siðbótinni leiddi aukin mannréttindi og meira jafnrétti. Hugmyndafræði norræna velferðarkerfisins er byggð á siðbótarkenningum Lúthers og hefur skapað þau eftirsóknarverðu samfélög sem byggð hafa verið á öllum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu.

Menningarleg tengsl

Við munum flest þegar Þjóðverjar buðu Íslendingum að vera heiðursgestir á bókamessunni í Frankfurt árið 2011. Þá sýndu Þjóðverjar okkur Íslendingum mikinn sóma og velvild. Íslenskum rithöfundum var boðið til Þýskalands, íslenskar bækur voru þýddar á þýsku og Ísland kynnt með margvíslegum og afar jákvæðum hætti í þýskum fjölmiðlum. Áhugi Þjóðverja á íslenskum bókmenntum er ekki nýr af nálinni og sagnaheimur okkar hefur heillað þýska lesendur um aldir. Bækur Jóns Sveinssonar, Nonnabækurnar, eru t.d. enn lesnar í Þýskalandi. Ekki má heldur gleyma íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsefni, en sjaldan líður á löngu áður en þýskir áhorfendur fá að sjá nýtt íslenskt efni.

Þjóðverjar er meðal mestu menningarþjóða í heimi með mikinn menningararf. Í tónlistinni gnæfa yfir risarnir Bach, Brahms, Beethoven og Wagner svo aðeins nokkrir séu nefndir. Í ritlistinni má nefna Goethe, Schiller, Heine, Brecht, Hesse, Böll og Grass.

Á undanförnum árum hafa Íslendingar átt þess kost að sjá margar frábærar þýskar kvikmyndir á þýskri kvikmyndahátíð sem árlega er haldin í Reykjavík. Sumar þeirra má finna á Netflix.

Ekki má heldur gleyma íþróttatengslum þjóðanna, einkum á sviði handbolta og fótbolta þar sem margir Íslendingar hafa leikið með og þjálfað þýsk lið.

Iðnaður og atvinnulíf

Athyglisvert er hvernig þýskur iðnaður hefur byggst upp, vítt og breitt um stóran hluta landsins. Hafa ber í huga að Þýskaland er ekki gamalt ríki. Það varð til við sameiningu margra furstadæma á árunum 1870-1890. Fyrir þá sem láta sig varða uppbyggingu atvinnulífs er áhugavert að skoða hversu dreifð og sterk þýsk iðnfyrirtæki eru um allt landið. Rekstur farsælla fjölskyldufyrirtækja þar sem hver kynslóðin á fætur annarri miðlar fagþekkingu sinni til afkomenda er eftirtektarverður. Þýskur iðnaður er mjög útflutningsmiðaður. Vörugæði og áreiðanleiki eru aðalsmerki hans, sem leiðir vafalítið af aga og virðingu fyrir vinnu. Frá tímum Hansakaupmannanna höfum við Íslendingar notið þýskrar vöru og þjónustu – og njótum enn.

Höfundur hefur nokkrum sinnum átt þess kost að sitja iðnþing þýska iðnaðarins og þar er skýrt hve mikla áherslu Þjóðverjar leggja á traust og gott samstarf forystumanna iðnaðar og stjórnvalda. Ræðu kanslarans er jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu og þykir hún vera einn af mikilvægustu dagskrárliðum iðnþings Þjóðverja.

Þjóðarleiðtoginn Angela Merkel

Angela Merkel hefur á erfiðum tímum í stjórnmálum heimsins sýnt að hún er einn fremsti þjóðarleiðtogi okkar tíma. Hún var fyrst kjörin kanslari Þýskalands árið 2005 og hefur því nú verið kanslari í 14 ár. Merkel hefur tekið margar umdeildar ákvarðanir, s.s. að loka kjarnorkuverum og hvetja í stað þess til nýsköpunar á sviði orku- og umhverfismála. Loftslagsmálin hafa verið henni hugleikin og hún hefur sýnt öðrum ríkjum fordæmi í því að setja hagsmuni alls heimsins ofar þrengri hagsmunum eigin lands. Margir dá hana fyrir þetta en aðrir gagnrýna.

Merkel er eftirtektarverður leiðtogi og bakgrunnur hennar er sérstakur. Faðir hennar var lúterskur prestur sem flutti frá Vestur-Þýskalandi til Austur-Þýskalands stuttu eftir að Merkel fæddist. Þar bjó fjölskyldan í litlum bæ og það reyndi á að vera kristin í Austur-Þýskalandi á þessum tíma. Merkel er raunvísindakona og doktor í eðlisfræði. Hún vandar mál sitt mjög, er íhugul og hugsar áður en hún talar. Hún talar ekki illa um andstæðinga sína og svarar ekki í sömu mynt þegar að henni er veist.

Þótt Merkel tali lítið um einkamál sín hefur það margoft komið fram í orðum hennar og athöfnum hversu mikilvægt það er henni að lifa sem kristin manneskja. Boðorð Krists um að elska náungann eins og sjálfan sig og gefa náunganum annan kyrtil sinn, eigi maður tvo, eru Merkel meira en orðin tóm. Í hennar gjörðum má sjá vilja til að koma bágstöddum til hjálpar, þótt ákvarðanir hennar í þeim efnum hafi verið umdeildar meðal flokkssystkina hennar í CDU og CSU. Margir telja að þær hafi jafnvel orsakað fylgisaukningu við þjóðernissinna í Þýskalandi og hatur á minnihlutahópum. Ástæður þess eru verðugt rannsóknarefni, nú þegar lífskjör jarðarbúa hafa aldrei verið betri og ævi fólks lengist stöðugt í flestum löndum jarðar.

Tækifæri til áframhaldandi samstarfs

Umhverfis- og loftslagsmál krefjast úrlausna og breyttra lifnaðarhátta fólks um allan heim. Eigi jarðlíf komandi kynslóða ekki að enda í hamförum þarf ýmislegt að breytast. Það er okkar, sem nú lifum, að hafa frumkvæði að þeim breytingum. Ríkisstjórnir Íslands og Þýskalands hafa sett umhverfis- og loftslagsmál á oddinn og hvetja til nýsköpunar og breytinga á öllum sviðum sem leitt geta til kolefnishlutlauss lífs og sjálfbærra lifnaðarhátta. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið sem gert var í desember 2015 varða leiðina.

Upplýsinga- og fjarskiptatækni er nú orðin hluti af flestum fræðasviðum, ekki síst verkfræði og tæknifræði. Tæknin leikur lykilhlutverk í því að okkur takist að þróa snjalllausnir sem hafa þann tilgang að auka lífsgæði fólks og öryggi þess, jafnframt því að vernda jörðina og allt líf hennar. Hér geta Íslendingar haft mikilvægt framlag þótt smáir séu.

Nú, þegar undirbúningur heimsóknar Merkel stendur sem hæst, langar mig að hvetja Íslendinga til að leita tækifæranna í samstarfi við Þjóðverja.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert