Tuttugu þýskir fréttamenn eru komnir til Íslands til þess að fylgjast með heimsókn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að því er áreiðanlegar heimildir Morgunblaðsins herma en hún kemur til landsins í dag.
Er fjölmiðlafólk óvenjumargt miðað við það sem gerist við heimsóknir annarra þjóðarleiðtoga til landsins.
Öryggisgæsla í kringum heimsókn Merkel mun vera með hefðbundnu sniði, eftir því sem sömu heimildir herma. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag er Merkel sérstakur gestur árlegs sumarfundar forsætisráðherra Norðurlandanna og er hún hér í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Fjölmiðlamenn frá Norðurlöndunum eru einnig hérlendis vegna sumarfundarins.
Auk þess að sitja fundi forsætisráðherranna mun Merkel funda einslega með Katrínu á Þingvöllum í dag. Óljóst er hversu lengi Merkel verður á landinu en hún mun alla vega dvelja hér fram á þriðjudag, að því er fram kemur í Mmorgunblaðinu í dag.