Eymundur Matthíasson lést 16. ágúst síðast liðinn eftir langvinn veikindi. Eymundur stofnaði hljóðfæraverslunina Sangitamiya á Klapparstíg árið 2005, en þar eru seld hljóðfæri frá öllum heimshornum.
Eymundur fæddist í Reykjavík 1961. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1980 og BS-gráðu í stærðfræði og eðlisfræði frá Washington & Lee University í Virginíu 1983.
Eymundur lagði stund á píanónám í Manchester 1983-1986 og nam einnig tónsmíðar og fiðluleik. Eymundur vann um langt skeið hjá Talnakönnun og kenndi á árunum 1986 til 1990 við Menntaskólann í Reykjavík.
Eymundur var einn af forsvarsmönnum Sri Chinmoy-miðstöðvarinnar, en hún byggir starf sitt á kenningum indverska andlega meistarans og friðarfrömuðarins Sri Chinmoy. Eymundur stóð áratugum saman fyrir ókeypis námskeiðum í jóga og hugleiðslu hér á landi. Þá var hann einn af stofnendum Friðarhlaups Sri Chinmoy hér á landi, en það er alþjóðlegt kyndilhlaup sem hlaupið hefur verið allar götur síðan 1987.
Eymundur var öflugur hlaupari og vann m.a. fyrsta Jökulsárhlaupið árið 2004. Heimildarmyndin Seeker um Eymund og sönghóp sem hann stofnaði var sýnd á RIFF síðastliðið haust.