Fyrirvararnir verða að vera festir í lög

Fundur í utanríkismálanefnd Alþingis um þriðja orkupakkann 6. maí 2019. …
Fundur í utanríkismálanefnd Alþingis um þriðja orkupakkann 6. maí 2019. Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson. Í dag var sama mál á dagskrá í nefndinni og tvímenningarnir mættu aftur og gerðu aftur grein fyrir álitsgerð sinni. mbl.is/​Hari

Kveða verður skýrt á um tvennt í íslenskum lögum þegar þriðji orkupakki Evrópusambands er tekinn inn í þau, tveir fyrirvarar skulu gerðir: Einn, sem kveður á um að Íslandi sé ekki skylt samkvæmt nýjum lögum undir nokkrum kringumstæðum að leggja sæstreng, og annan, um að Ísland hafi stjórnskipulegan fyrirvara á gildistöku þeirra gerða sem kunna að rekast á við stjórnarskrá landsins. 

Þetta kom fram í máli Friðriks Árna Friðriks­sonar Hirst lands­rétt­ar­lögmanns og Stefáns Más Stef­áns­sonar, pró­fess­ors við laga­deild Há­skóla Íslands, þegar þeir komu fyr­ir fund ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar í morg­un. Í maí komu þeir fyrir sömu nefnd og gerðu grein fyrir álitsgerð sinni um orkupakkann og komu aftur í morgun að beiðni Miðflokksins. Áður hafa þeir sagt að lögfræðilega væri réttast að hafna orkupakkanum, en þar sem slíkt standi ekki til boða séu til aðrar lausnir, svo sem að hafa umrædda fyrirvara.

„Þegar við metum hvort þessi pakki ríkisstjórnarinnar standist eða standist ekki, fer það náttúrulega eftir því hversu þéttur hann er, eru allir fyrirvarar inni í honum?“ sagði Stefán Már á fundinum. Hann og Friðrik telja höfuðmál að áðurnefndir tveir fyrirvarar standi skýrt í lögunum sem sett verða á Íslandi um málið, því sú ráðstöfun styrki mjög samningsstöðu Íslands. Þeir segja hins vegar í samtali við mbl.is að ekkert sé sem segi að ríkisstjórninn muni ekki hafa þessar fyrirvara inni í lögunum, en hingað til hafa þeir aðeins verið nefndir í reglugerðardrögum. Þau hafa ekki gildi ef fer í hart vegna erlendra málsókna. 

Friðrik og Stefán telja, sem áður, að besta lausnin í orkupakkamálinu hefði verið sú að fara með málið aftur inn í EES-nefndina og koma sjónarmiðum Íslands aftur á framfæri þar. Sú leið er háð annmörkum sem Karl Baudenbacher fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn hefur reifað við utanríkismálanefnd, nefnilega þeim, að slík viðleitni kynni að hafa óhagstæð áhrif á stöðu Íslands innan EES-samstarfsins.

Kemur ekki í veg fyrir málsókn

Þar sem sú leið verður ekki farin, segir Stefán Már að „næstbesta“ lausnin sé sú, að koma nefndum fyrirvörum fyrir í íslensk lög. Með því er hægt að komast sem næst samkomulagi Íslands og EES um að fyrirvararnir hafi gildi, án þess að festa þá í reglur innan sameiginlegu EES-nefndarinnar.

„Við þurfum að gæta þess að fá ekki á okkur samningsbrotamál, það er þjóðréttarlegi hluti dæmisins,“ sagði Stefán. „Þú kemur hins vegar aldrei í veg fyrir málsókn, heldur spáir maður auðvitað meira í því hvernig úrslit þeirrar málsóknar verða,“ sagði hann.

Í því sambandi þurfi að tryggja áðurnefnda fyrirvara inn í íslensk lög, þingsályktunina. „Það er annars vegar fyrirvarinn um það að Ísland sé ekki bundið til að leggja sæstreng nema þingið ákveði það sjálft og hins vegar að Ísland hafi stjórnskipulegan fyrirvara,“ sagði Stefán. „Þetta tvennt er alveg gríðarlega mikilvægt, að klárt sé gagnvart viðsemjendum okkar að þetta sé gert á þessum forsendum.“

Lögfræðingar ræða pólitísk mál

Karl Baudenbacher áðurnefndur kom fyrir nefndina fyrr í sumar og reifaði hvaða afleiðingar hann teldi að það hefði ef Íslendingar færu fram á að orkupakkinn yrði tekinn aftur upp innan EES-nefndarinnar. Miðflokksmenn hafa gagnrýnt þá orðræðu Baudenbacher, meðal annars dregið í vafa að eðlilegt sé að hann tjái sig með þeim hætti.

Karl Baudenbacher kom á fund utanríkismálanefndar fyrr í sumar og …
Karl Baudenbacher kom á fund utanríkismálanefndar fyrr í sumar og sagði þar að óæskilegt væri fyrir Íslendinga að reyna að fá málið endurupptekið innan sameiginlegu EES-nefndarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins spurði lögfræðingana tvo á hvaða forsendum lögspekingar geti leyft sér að álykta um þær hugsanlegu pólitísku afleiðingar sem synjun orkupakkans eða krafa um endurupptöku hans í sameiginlegu EES-nefndinni kynni að hafa, krafa sem Ólafur benti á að væri leið sem væri mörkuð í reglum samstarfsins. Stefán sagðist í sjálfu sér ekki hafa leikið þann leik að álykta um pólitískar afleiðingar þess, heldur aðeins bent á þann möguleika að það að koma aftur fyrir nefndina með málið gæti hugsanlega haft óhagstæð pólitísk áhrif fyrir Ísland.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tók þá fram að Bau­den­bacher hafi tekið fram að þessi leið væri fær og heim­il en sagði að vegna stöðu sinn­ar núna gæti hann leyft sér að fjalla um þetta lögfræðilega en einnig gæti hann fjallað um hvaða pólitísku afleiðingar þetta kynni að hafa, vegna þekkingar sinnar á samstarfinu. Baudenbacher sagði samkvæmt Loga að hvort sem sátt næðist inni í sam­eig­in­legri nefnd eða þetta færi fyr­ir dóm, myndi tíma­lín­an og hegðun Íslands á þess­ari veg­ferð skipta máli fyr­ir niður­stöðuna sem Ísland fengi í dómsmáli ef slíkt yrði höfðað. Þannig skipti máli hvað Ísland segði og gerði kröfur um ef í hart færi síðar meir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka