Leita á ný á fimmtudag

Belgíska ferðamannsins hefur verið saknað frá því á laugardag 10. …
Belgíska ferðamannsins hefur verið saknað frá því á laugardag 10. ágúst. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirhugað er að leit verði hafin að nýju á fimmtudaginn líki belg­íska ferðamanns­ins sem tal­inn er hafa fallið í Þing­valla­vatn fyrir rúmri viku. Þetta staðfestir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi. Um helgina var notaður kafbátur við leitina en án árangurs. 

Á miðvikudagsmorgun verður haldinn fundur með svæðisstjórn björgunarsveita og þeim sem hafa mesta þekkingu á þeim tækjum og búnaði sem er mögulegur í leitina.  

Stór kafbátur frá fyrirtækinu Teledyne Gavia sem var notaður við leitina á föstudaginn síðastliðinn verður sendur aftur niður í Þingvallavatn á fimmtudaginn. Hann kemst niður á 1.000 metra dýpi en þar sem Þingvallavatn er dýpst er það um 100 metrar. „Við förum aftur ef óskað er eftir okkar aðstoð,“ segir Stefán Reynisson framkvæmdastjóri Teledyne Gavia ehf. 

Kafbáturinn getur bæði leitað með sónar og myndavél og getur farið á þau svæði sem kafari kemst ekki niður á vegna dýptar. „Við höfum komið að nokkrum leitum áður og átt í góðu samstarfi við lögreglu,” segir Stefán.  

Um helgina, laugardag og sunnudag, var hins vegar notaður kafbátur sem ekki er í eigu Gavia. Honum er fjarstýrt frá bát sem siglir fyrir ofan hann. Hann kemst niður á 70 metra dýpi. 

„Við viljum aðstoða eins og við getum. Við viljum að maðurinn finnist sem fyrst fyrir fjölskyldu og vini svo hægt sé að loka málinu,“ segir Stefán. 

Kafbátafyrirtækið hefur lánað lögregluyfirvöldum kafbátinn í slíkar leitir hér á landi. Þess má geta að slíkur bátur kostar um 100 milljónir króna. Fyrirtækið er með starfsemi víða um heim og eru helstu viðskiptavinir þess eru ýmsar ríkisstjórnir sem nota kafbáta fyrir sjóherinn og landhelgisgæsluna auk þjónustufyrirtækja sem skoða t.d. neðansjávarbyggingar. 

„Við erum alltaf með einn hér heima sem við notum í sölusýningar. Þegar hann er laus er ekkert því til fyrirstöðu að lána hann við leit sé þess óskað,“ segir Stefán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert