Lögregla lokar hluta Reynisfjöru

Lögregluborðinn vekur athygli ferðamanna í Reynisfjöru sem kanna aðstæður.
Lögregluborðinn vekur athygli ferðamanna í Reynisfjöru sem kanna aðstæður. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Lögreglan á Suðurlandi hefur nú lokað fyrir umferð fólks austast í Reynisfjöru. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar, sem segir þetta gert vegna hruns úr berginu yfir fjörunni.

„Samkvæmt upplýsingum lögreglu slösuðust tveir þegar þeir fengu gjót á sig, annarsvegar karlmaður um tvítugt og hinsvegar barn. Meiðsl þeirra munu þó ekki vera alvarleg,“ að því er segir í færslunni, en lögregla birtir myndband af grjóthruninu þar með.

Verið er að skoða aðstæður á vettvangi og meta hvort og til hvaða aðgerða verður gripið umfram þær sem þegar hefur verið gripið til.

Uppfært kl. 16:55: Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að verið sé að fá álit sérfræðinga Veðurstofunnar á aðstæðum. Lokað verði í þessum hluta fjörunnar þar til aðstæður verði orðnar öruggar, en talið er að grjóthrunið hafi átt sér stað vegna mikils þurrks á svæðinu.

Að sögn Odds er staðfest að tveir hafi hlotið minniháttar áverka vegna grjóthruns í dag, auk þess sem ábending hafi borist um að einhver hafi orðið fyrir grjóti á svipuðum slóðum í gær. Það hafi þó ekki fengist staðfest.

Lokunin er rétt austan við Hálsaneshelli, vinsælan viðkomustað í Reynisfjöru.
Lokunin er rétt austan við Hálsaneshelli, vinsælan viðkomustað í Reynisfjöru. Mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka