Vel fór á með Angelu Merkel og Katrínu Jakobsdóttur þar sem forsætisráðherra tók á móti kanslaranum við Hakið á Þingvöllum nú í kvöld.
Leiðtoginn íslenski lýsti staðháttum fyrir þeim þýska þar sem þær gengu niður Almannagjá og áleiðis í ráðherrabústaðinn þar sem fram fer blaðamannafundur innan skamms.
Merkel, kanslari Þýskalands, er sérstakur gestur á árlegum sumarfundi ráðherra Norðurlandanna sem hefst formlega á morgun. Sérstaklega verður horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun.