Setja viðræður í nýtt ljós

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Upplýsingar um launaþróun forstjóra ríkisfyrirtækja setja kjaraviðræður BHM við ríkisvaldið í nýtt ljós að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM. Upplýsingarnar sem um ræðir komu fram í svari við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, til fjármálaráðherra.

Þar kom fram að laun ríkisforstjóra hefðu hækkað um tæplega fjórðung síðan kjararáð var lagt niður árið 2017. Stjórnir viðkomandi fyrirtækja bera nú ábyrgð á launakjörunum. Í samtali við mbl.is í gær sagði Þorsteinn sláandi hve mikið ósamræmi væri í launaákvörðunum eftir fyrirtækjum. Kallaði hann eftir samræmdri launastefnu sem stjórnum umræddra fyrirtækja yrði gert að fylgja.

Sama ríkisvaldið í viðræðunum

„Þessar upplýsingar setja kjaraviðræðurnar í nýtt ljós,“ segir Þórunn og nefnir að aðildarfélög BHM eigi nú í kjaraviðræðum við „það sama ríkisvald og beri ábyrgð á rekstri og launakjörum þessara fyrirtækjastjórnenda“. „Í viðræðum um kaup og kjör félagsmanna innan BHM hefur sannarlega ekki bólað á neinu viðlíka handa okkar fólki,“ segir Þórunn, sem kveðst hugsi yfir upplýsingunum og að þær verði rýndar betur.

Þórunn bætir því við að kjararáð hafi verið lagt niður fyrir um tveimur árum til að koma í veg fyrir að laun æðstu stjórnenda ríkisins þróuðust með tilviljanakendum og ógegnsæjum hætti. „Nú virðist sem einmitt það hafi gerst. Það er alvarleg hlið á málinu og það verður að skoða þessar upplýsingar í því ljósi líka,“ segir hún. „Miðað við það sem nú liggur fyrir velti ég því fyrir mér hvort það að leggja niður kjararáð hefur haft tilætluð áhrif,“ segir Þórunn í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert