Taka af öll tvímæli í bréfi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson Thors

Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, taka af öll tvímæli um að nauðsynlegir fyrirvarar við innleiðingu þriðja orkupakkans hafi verið settir fram nógu skilmerkilega í bréfi sem þeir sendu utanríkismálanefnd Alþingis síðdegis í dag.

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, sem hefur sent fjölmiðlum bréfið.

„Í umfjöllun um fundi utanríkismálanefndar um þriðja orkupakkann í dag hefur verið látið að því liggja að þeir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson telji að nauðsynlegir fyrirvarar Íslands við innleiðinguna séu ekki settir fram nógu skilmerkilega. Þeir sendu utanríkismálanefnd bréf síðdegis í dag þar sem þeir taka af öll tvímæli um þetta,” skrifar Áslaug Arna á Facebook-síðu sína.

„Í bréfinu segja þeir að þegar frumvörp, greinargerðir og önnur gögn málsins séu lesin saman sé niðurstaða þeirra sú „að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga”. Ég tel jákvætt og þýðingarmikið að fá þetta fram enda lýsti einn nefndarmaður þeirri skoðun eftir fundahöld dagsins að þetta tiltekna atriði væri enn ósvarað varðandi þriðja orkupakkann. Því hefur nú verið svarað,” skrifar hún.”

Bréfið í heild sinni:

„Eins og fram kom hjá okkur á fundi utanríkismálanefndar í dag teljum við mikilvægt að fyrirvarar Íslands, við upptöku og innleiðingu EES-gerða samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, séu settir fram með skýrum hætti, þ.e. fyrirvarar um stjórnarskrá og um forræði Íslands á lagningu sæstrengs.

Séu fyrirliggjandi skjöl lesin saman, þ.e.a.s. þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunartillaga ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk lagafrumvarpa hins síðarnefnda, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, teljum við að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga.

Þannig segir í 2. kafla greinargerðar með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra:

„Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.

Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.“

Þá kemur fram í þingsályktunartillögu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„... Ekki verður ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. ...“

 Þar að auki segir í 3. gr. í drögum að reglugerð um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem fyrir liggur á þingskjali 1555:

„Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.

Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.“

Við göngum út frá því að fyrirvarar Íslands samkvæmt framansögðu séu skilmerkilega kynntir viðeigandi aðilum að EES-samningnum með formlegum hætti verði umrædd þingmál samþykkt á Alþingi.“

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert