Skúli Mogensen segir fráleitt að halda því fram að hann og hans fólk hafi ekki unnið að heilindum í einu og öllu við uppbyggingu og við að reyna að verja WOW air falli. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrrverandi forstjóri og aðaleigandi WOW hefur sent frá sér.
„Vegna umfjöllunar um málefni WOW air vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri.
Það er eðlilegt að rýna og læra af vexti og falli WOW air. Það er hins vegar mjög auðvelt að vera vitur eftir á og sorglegt að sjá hvernig sumir keppast við gera viðskipti WOW air tortryggilegt. Það er fráleitt að halda því fram að ég og mitt fólk höfum ekki unnið a[f] heilindum í einu og öllu við uppbyggingu og síðan við það að reyna að bjarga félaginu frá falli. Allt frá stofnun WOW air var undirritaður og félög tengd mér helsti fjármögnunaraðili félagsins bæði með beinum fjárframlögum, lánum og ábyrgðum upp á tugi milljarða króna. Heildartap mitt og minna félag[a] við fall WOW air nemur hátt í átta milljörðum króna. Nokkur atriði sem vert er að nefna í þessu sambandi:
1. Það er ekki rétt að ég hafi fengið milljarða greiðslur út úr WOW air. Þar hefur sérstaklega verið nefnd sala Títan til WOW air á kauprétti á fjórum flugvélum fyrir 1 milljarð og sagt að Títan hafi fengið umræddan kauprétt ókeypis. Þetta er fráleitt enda ekkert frítt í heimi flugvéla. Hið rétta er að Títan fékk umræddan kauprétt gegn því að ábyrgjast allar greiðslur WOW air í tíu ár upp á tugi milljarða vegna umræddra kaupa. Þetta var skilyrði af hálfu flugvélaleig[j]andans. Það skal líka tekið fram að Títan fékk ekki umræddan milljarð í reiðufé heldur að mestu leyti í formi fleiri hlutabréfa í WOW air. WOW air seldi umræddar flugvélar til Air Canada gegn greiðslu í reiðufé og því augljóslega rangt að tala um að engin verðmæti hafi skapast eða átt sér stað.
2. Varðandi riftun skiptastjóra á greiðslu Cargo Express til Títan. Við höfum þegar mótmælt þessu harðlega enda teljum við alveg skýrt að WOW air öðlaðist aldrei eignarrétt til arðgreiðslunnar frá Cargo Express. Arðgreiðslan var alltaf skilgreind eign Títan þegar Cargo Express var selt WOW air og átti þar af leiðandi alltaf að renna til Títan en ekki WOW air.
3. Húsnæði í London. Þegar WOW air leigir húsnæði í London í byrjun árs 2017 var WOW air að undirbúa opnun á nýrri starfsstöð/Hub í London eða Dublin og jafnframt að skoða mögulega skráningu á markaði í London. Hvort tveggja kallaði á verulega viðveru forstjóra í London. WOW air skilaði yfir 4 milljörðum í hagnað árið 2016 og því voru þessi áform eðlilegt skref í áframhaldandi uppbyggingu WOW air á þeim tíma og ekkert óeðlilegt við það að félagið skyldi leigja húsnæði fyrir forstjóra félagsins í þeim tilgangi að sinna þeim verkefnum.
4. Varðandi skuldabréfaútboð WOW air. Það er ekki rétt að tala um að WOW air hafi verið ógjaldfært á fyrri hluta ársins 2018 eða að við höfum ekki unnið af heilindum í skuldabréfaútboði félagsins í september 2018. Hjá félaginu störfuðu ótal sérfræðingar sem og ytri ráðgjafar sem fóru vandlega yfir öll gögn og uppgjör félagsins. Það sést einnig best á því að ég fjárfesti sjálfur fyrir 700 m. kr. í umræddu útboði og lagði hús mitt og fleiri eignir að veði. Augljóslega hefði ég aldrei lagt allt undir nema ég hefði verið sannfærður um það að umrædd upphæð myndi duga til að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air. Ytri aðstæður breyttust hins vegar mjög hratt til hins verra skömmu eftir skuldabréfaútboðið og því miður tókst okkur ekki að tryggja frekari fjármögnun félagsins í tæka tíð.
Að lokum þá er það ljóst að enginn stofnar flugfélag og leggur marga milljarða í verkefnið nema að vera bjartsýnn og hafa trú á tækifærinu. Þegar við fórum af stað með WOW air höfðu fáir trú á því að okkur myndi takast ætlunarverkið, að byggja hér upp flugfélag og vörumerki sem vakti heimsathygli og myndi flytja milljónir ferðamanna til og frá Íslandi. WOW air skilaði hagnaði mun fyrr en nokkurn óraði fyrir og var afkoman jákvæð um rúma fjóra milljarða árið 2016. Þessum mikla og góða árangri fyrstu árin er ekki síst þeim frábær[a] hópi starfsfólks að þakka sem lagði nótt við dag að byggja WOW air upp. Ég er óheyrilega stoltur af þessum hóp[i] og því sem við áorkuðum þvert á allar spár. Það má til sanns [vegar] færa að þessi mikla velgengni sem WOW air naut á fyrstu árum sínum og þá sérstaklega 2015 og 2016 með ört stækkandi flota, þar með talið breiðþotunum sem gengu mjög vel fyrsta árið, hafi átt sinn þátt í að það fór sem fór. Þessi mikla velgengni gerði það nefnilega að verkum að ég dró það að skrá félagið og/eða sækja nýtt hlutafé. Eftir á hefði það klárlega verið skynsamlegra að fá inn fleiri hluthafa og styrkja þannig félagið og draga úr því hversu háð WOW air var mér og mínum félögum. En það er nauðsynlegt að hafa þessa velgengni líka í huga þegar ákvarðanir sem teknar voru í aðdraganda falls WOW air eru skoðaðar. Við höfðum áður lent í ólgusjó en ávallt tekist að komast í gegnum þær raunir og orðið sterkari fyrir vikið. Það var því aldrei nokkur vafi í mínum huga að við myndum klára þetta verkefni og komast aftur í gegnum þær erfiðu ytri aðstæður sem við lentum í síðastliðinn vetur. Ég hef aldrei skorast undan minni ábyrgð í hvernig fór og mun þurfa að búa við það alla tíð. Ég mun hins vegar aldrei fallast á það að ég og mitt fólk höfum ekki unnið af heilindum við uppbyggingu WOW air allt fram á síðasta dag.
Virðingarfyllst
Skúli Mogensen“