Steinar Farestveit, fyrrverandi yfirverkfræðingur Stokkhólmsborgar, andaðist í Stokkhólmi 6. ágúst, 84 ára að aldri.
Hann fæddist á Hvammstanga 5. maí 1935. Foreldrar hans voru hjónin Einar Farestveit (1911-1994), forstjóri í Reykjavík, ættaður frá Modalen í Hörðalandi í Noregi, og Guðrún Sigurðardóttir (1915-1996) frá Hvammstanga. Guðrún var dóttir Sigurðar Pálmasonar, kaupmanns á Hvammstanga, frá Æsustöðum í Langadal, og Steinvarar Benónýsdóttur frá Breiðabólstað í Vesturhópi.
Steinar fluttist með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur 1943. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955 sem dúx í stærðfræðideild, hóf síðan nám við Nordisk Teknisk Högskola í Þrándheimi í Noregi og lauk þaðan prófi 1959 sem byggingaverkfræðingur (MSc) með vega- og mannvirkjahönnun sem sérsvið. Að lokinni útskrift réðst hann sem sérfræðingur til gatna- og vegamáladeildar Stokkhólmsborgar og veitti forstöðu þeirri deild sem annaðist uppbyggingu á jarðlestakerfi borgarinnar.
Árið 1964 fór Steinar til starfa hjá verkfræðistofunni AB Samuelsson og Bonnier við undirbúning flókinna vegamannvirkja sem byggð voru í Stokkhólmi. Árið 1967 réð hann sig svo aftur til gatna- og vegamáladeildar Stokkhólms til að hafa yfirumsjón með framkvæmdum við jarðlestakerfi borgarinnar. Árið 1990 var Steinar svo skipaður yfirverkfræðingur allra mannvirkja sem unnið var að á vegum borgarinnar ásamt uppbyggingu jarðlestakerfisins.
Árið 1992 var verkfræðiskrifstofu Stokkhólmsborgar breytt í einkafyrirtækið Stockholms Konsult AB. Steinar tók þá við sem yfirmaður mannvirkjahönnunar þar.
Steinar kvæntist Karen Bersås (f. 1938) árið 1959 í Þrándheimi. Þau skildu. Börn þeirra eru Stefan, f. 1962, Tomas, f. 1966, Jessica, f. 1971, og Hanna, f. 1976. Sambýliskona Steinars til þrjátíu ára er Cecilia Wenner.
Útför Steinars verður gerð frá Ekerö-kirkju í Stokkhólmi 5. september.