„Bergið greinilega óstöðugt“

Lögreglumaður mun vera í Reynisfjöru í dag vegna lokunar austasta …
Lögreglumaður mun vera í Reynisfjöru í dag vegna lokunar austasta hluta hennar. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Við erum bara búin að loka austasta hluta Reynisfjöru eins og hægt er með lögregluborða. Fólk virðist – alla vega enn sem komið er – virða það,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Hann er nú í Reynisfjöru þar sem  skriða féll úr Reynisfjalli í nótt.

„Ég reikna nú með að það verði lögreglumaður hérna í dag og svo tökum við stöðuna í lok dags. Við eigum von á því að það komi sérfræðingur frá Veðurstofunni til þess að meta aðstæður,“ svarar Sigurður spurður um framkvæmd lokunarinnar. Hann segir farið að rigna og því erfiðara að nýta dróna til þess að skoða aðstæður betur.

Þá hafi það verið heppni að skriðan hafi fallið í nótt en ekki á sama tíma og gerðist í gær þegar varð slys, en þá höfuðkúpubrotnaði maður, að sögn varðstjórans. „Þetta er á nákvæmlega sama stað og var hópur fólks í gær.“

Fram hefur komið í samtali mbl.is við íbúa í grennd fjörunnar að stöðugt falli grjót úr Reynisfjalli. Sigurður svarar því ekki afdráttarlaust hvort þurfi að koma á varanlegri lokun. „Það þyrfti þá að taka einhverja sérstaka ákvörðun um það í framhaldinu. Greinilega virðist bergið vera nokkuð óstöðugt á þessum stað.“

mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert