Brauðtertusamkeppni, lúðrasveitauppgjör, fjölskyldujóga, rauðvínsjóga, spunamaraþon, vöfflukaffi, knús og útikarókí. Þetta er aðeins brotabrot af yfir hundrað viðburðum sem gestum Menningarnætur gefst kostur á að sækja á laugardag, þegar Menningarnótt verður fagnar í borginni í 24. sinn.
Blindrafélagið, sem á 80 ára afmæli um þessar mundir, er heiðursgestur Menningarnætur í ár. Sölvi Kolbeinsson saxófónleikari lék ljúfa tóna þegar dagskrá, fyrirkomulag og öryggismál á Menningarnótt voru kynnt á torginu við Bernhöftstorfu í dag. Blindrafélagið mun bjóða upp á fræðslu og skemmtidagskrá í Ráðhúsinu á laugardag.
Leikarar, dansarar og fjöllistafólk verða með viðburði víða í miðborginni og nokkrir íbúar munu einnig bjóða upp á dagskrá í húsagörðum og sundum. Viðburðirnir eru svo sannarlega fjölbreyttir, allt frá ljóðalestri yfir í brauðtertusamkeppni. Erla Hlynsdóttir, annar stofnandi Brauðtertufélags Erlu og Erlu, sem stofnað var fyrr á árinu segir að hana hafi ekki órað fyrir þeim vinsældum sem félagið nýtur. Tæplega 8.000 manns eru í Facebook-hópi félagsins þar sem litríkar og girnilega myndir af alls konar brauðtertum fyrra fréttaveituna daglega.
Á laugardag mun félagið efna til brauðtertusamkeppni í samstarfi við listakonurnar og hönnuðina Tönju Levý og Valdísi Steinarsdóttur. Þær tóku forskot á sæluna í dag og buðu upp á dýrindis brauðtertu við Berhöftstorfu.
„Brauðtertan er búin að vera mér mjög hugleikin síðastliðin ár. Mér finnst þær rosalega fallegar en á sama tíma skrýtnar og furðulegar og ég þurfti að fá einhverja útrás fyrir því,“ segir Tanja, en hún hefur meðal annars hannað fatnað, til dæmis sundboli, það sem brauðtertan veitti henni innblástur.
„Það er samhugur í fólki, allir eru svo hvetjandi og það er fallegt samfélag að myndast í kringum brauðtertuna,“ segir Valdís. Þær vildu því veita áhugafólki um brauðtertur sameiginlega vettvang til að hittast í raunheimum, bera saman bækur sínar og smakka alls konar brauðtertur.
Keppnin fer fram í Listasafni Reykjavíkur frá klukkan 14-16 og er öllum heimil þáttataka. Keppt verður í þremur flokkum; fallegasta, frumlegasta og bragðbesta brauðtertan og verða verðlaun veitt í hverjum flokki.
„Ég er mjög spennt að sjá hvernig frumlegustu brauðterturnar verða. Brauðtertan er mjög falleg og hefðbundin í eðli sínu og það verður gaman að sjá hvort fólk þori að brjóta upp brauðtertuna og gera eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Valdís.
Strangt til tekið er umsóknarfrestur runnin út en eldheitum brauðtertugerðarmeisturum gefst þó kostur á að senda inn síðbúna umsókn á braudtertanlifir@gmail.com. Hámark 30 brauðtertur koma til greina í keppninni. Dómararnir eru þaulreyndir í brauðtertuheiminum, en auk Erlu Hlynsdóttur munu þau Sigurður Hall matreiðslumeistari og Margrét D. Sigfúsdóttir, skólameistari Hússtjórnarskólans í Reykjavík velja fallegustu, frumlegustu og bragðbestu brauðtertuna.
Um leið og úrslit liggja fyrir í brauðtertukeppninni geta gestir valið úr ótal viðburða, til dæmis útikarókí við Bernhöftstorfuna þar sem tvíeykið Hits&Tits mun halda vel utan um stjórnartaumana og sjá til þess að sem flestir komist að. Hits&Tits samanstendur af plötusnúðunum, karókídrottningunum og uppistöndurunum Margréti Erlu Maack og Ragnheiði Maísól.
„Þetta er í þriðja sinn sem við gerum þetta, við höfum gert þetta svona annað hvert ár til að mynda spennu milli ára,“ segir Margrét Erla. „En við höfum staðið fyrir partý karókí síðan 2012,“ bætir Ragnheiður Maísól við.
Þær segja Bernhöftstorfuna fullkominn stað fyrir útikarókí þar sem fólk getur tyllt sér í brekkuna og notið (mis) ljúfra tóna. Sviðið verður sett upp á miðju torginu og lofa þær miklum „hversdagsskemmtilegheitum“. „Við viljum síður þá sem eru úber söngvarar, frekar þá sem leggja allt í „performansinn“ og stuðið.“ segir Ragnheiður Maísól.
Útikarókí-ið hefst klukkan 16 á Berhöftstorfunni við Lækjargötu og lýkur klukkan 19.
Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman. Formlegri dagskrá lýkur rétt eftir klukkan ellefu með flugeldasýningu. Frítt verður í strætó allan daginn og eru gestir hvattir til að nýta sér gulu limmuna sem samgöngumáta.