Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir það alltaf hafa verið draum sinn að heimsækja Ísland og það sé heiður að fá að kynnast hér kvenleiðtoga sem horfi björtum augum til framtíðar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók á móti Merkel á Þingvöllum í gær. Þar var sögustaðurinn kynntur fyrir evrópska leiðtoganum.
Merkel verður sérstakur gestur á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlandaríkjanna sem hér er haldinn og hefst í dag. Er þetta fyrsta opinbera heimsókn þýska kanslarans til Íslands, en hún hefur verið við völd í 14 ár. Hefur hún lýst því yfir að hún muni hætta í stjórnmálum við lok kjörtímabilsins, árið 2021. Merkel rifjaði það upp á fundinum að hún komst ekki heim úr heimsókn til Bandaríkjanna vegna eldgossins í Eyjafjallajökli á sínum tíma. Þannig sagði hún Ísland sýna og kenna að maðurinn þyrfti að koma vel fram við náttúruna og sýna auðmýkt gagnvart henni. Umhverfismál verða einmitt ofarlega á baugi á fundi forsætisráðherranna í dag.
Katrín tók einnig í gær á móti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, þegar þeir komu til landsins vegna sumarfundarins. Heimsótti Löfven m.a. Hellisheiðarvirkjun og Katrín átti fund með Rinne í Ráðherrabústaðnum.