Flugeldasýningin á menningarnótt á laugardag verður með óbreyttu sniði. Hún hefst að loknu Tónaflóði, stórtónleikum Rásar 2, um klukkan 23. Skotið verður upp á sama stað og í fyrra, við Austurbakkann.
„Það verður niðurtalning á Hörpu og svo verður skotið upp,“ segir Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða hjá Reykjavíkurborg, í samtali við mbl.is.
Rætt hefur verið innan borgarkerfisins hvort flugeldasýningin á menningarnótt í ár verði hugsanlega sú síðasta. Hugmyndir í þá veruna tengjast umræðu um umhverfismál og áhrifum flugelda á heilsu astmasjúklinga.
Guðmundur Birgir segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um framhald flugeldasýningarinnar og því verði hún með óbreyttu sniði í ár og ekki hefur verið tekin ákvörðun um næsta ár.
„Þessar umræður koma upp annað slagið í öllu stjórnkerfinu. Það er sérstaklega verið að horfa til áramótanna því þá hækkar mengunarstaðallinn, en það er ekki búið að taka neina ákvörðun með menningarnótt. Við viljum halda þessari umræðu gangandi en það er ekki búið að taka ákvörðun varðandi næsta ár.“