„Ég er ánægð með hugmyndina um vettvang til skipulagðari samvinnu. Þessi brýnu viðfangsefni, sem við eigum öll við að etja í okkar heimalandi hvert um sig, eigum við einnig sameiginleg,“ sagði Angela Merkel á blaðamannafundi í Viðey í dag.
Merkel yfirgaf blaðamannafundinn fyrst manna eftir að honum lauk, enda á hraðferð annað. Eftir sátu norrænir ráðherrar og fóru í viðtöl. Kanslarinn þýski sagði ýmislegt meðan á fundinum stóð og svaraði spurningum fjögurra blaðamanna.
Ekki verður sagt að í máli Merkel hafi komið fram afgerandi fullyrðingar um nokkuð efni. Krafa hafði komið fram, meðal annars af hálfu Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, um að Merkel og ráðherrarnir lýstu yfir neyðarástandi í loftslagsmálum, en það var ekki gert.
Í ávarpi sínu áður en að spurningum blaðamanna kom, kom hún inn á hvarf jökulsins Oks og sagði að ekki síst í ljósi slíkra viðburða þyrfti að ráðast í miklar aðgerðir. „Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum,“ sagði Merkel og talaði um að hvarf jökulsins væri til vitnis um alvarlegt ástand og sömuleiðis að óvenjuleg veðrátta væri það líka. Það yrði síðar meir að greiða fyrir það dýrum dómum að aðhafast ekkert.
Merkel heimsótti Hellisheiðarvirkjun í dag og hefur á ferð sinni um Ísland rætt við forystufólk hjá Orku náttúrunnar um jarðhitanýtingu Íslendinga. Sú nýting heillaði Merkel, að sögn, og hún sagði hana mikilvægan lið í „hringrásarhugsun“ Íslendinga í nýtingu á auðlindum sínum.
Hún sagði þá að leiðtogarnir hafi rætt hvernig best væri að samræma viðleitni þjóðanna til lausna á vandamálum sem steðja að þeim öllum og að þar væri alþjóðlegt samstarf lykilatriði.
Hið þriðja og síðasta sem Merkel nefndi í ræðu sinni um hvað þetta fólk hefði verið að ræða, voru áskoranirnar sem stafræna byltingin hefði í för með sér. Þar talaði hún um að nú á dögum gætu allir tjáð sig á netinu, sem væri meiri háttar breyting frá því sem áður var, ekki ólík þeirri breytingu sem varð þegar prentlistin kom til. Við þessum breytingum þyrftu stjórnmálamenn að bregðast líka, breyttum samskiptaháttum.
Björn Malmquist, fréttamaður RÚV, spurði fyrir hönd Íslendinga. Hann spurði Merkel um hlutverk Þýskalands á norðurslóðum, einkum hlutverk hennar og Evrópusambandsins í vendingum á þeim slóðum, þar sem Bandaríkjamenn sækjast eftir auknum áhrifum vegna hernaðarhagsmuna.
Merkel sagði að Þýskaland sé fyrst og fremst í því hlutverki að vakta þetta svæði og fylgjast með því, frekar en að taka beinan þátt, enda slíkt á forræði annarra ríkja. Hins vegar sé svæðið augljóslega að verða æ mikilvægara, einkum í sambandi við vöruflutninga og annað á þessum slóðum. Að hlúa að þessum slóðum sé eitt af mikilvægustu verkefnum mannkyns og það þyrfti að gera í samvinnuanda. Þar myndi Þýskaland leggja sitt af mörkum. Þó að Þýskaland hafi að einhverju leyti látið sitt eftir liggja síðustu ár í þeim efnum, stæði til að leggja nýjar línur á þinginu.
Þýskur blaðamaður spurði Merkel hvort og hvernig hún hygðist leggja sitt af mörkum til þess að Bretland flyti ekki hægt og rólega í sömu átt og Bandaríkin, það er, í átt frá Evrópu og átt að meiri einangrun, einkum ef til samningslauss Brexits kæmi. Merkel hittir Boris Johnson nýjan forsætisráðherra Breta á morgun.
Merkel sagði þá að hún hafi rætt Brexit hér á landi við norrænu leiðtogana. Enn ætti eftir að koma í ljós hvernig Brexit verði útfært en að bíða þurfi og sjá, hvernig Bretar vilji hátta því. Þegar praktísk lausn lægi fyrir, ætti auðvitað að leitast við að nota hana.
Danskur blaðamaður spurði Merkel hvað það þýddi að komið væri á sameiginlegum vettvangi Norðurlandaþjóða og Þýskalands í loftslagsmálum. Merkel svaraði því til að vettvangurinn væri ekki aðeins um loftslagsmál heldur ættu þessar þjóðir æði margt sameiginlegt þegar kæmi að alþjóðlegum skuldbindingum þeirra.
Norskur blaðamaður spurði hvaða mál yrðu sett á dagskrá sérstaklega af Norðurlandaþjóðum og Þjóðverjum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York síðar á þessu ári. Merkel kvaðst ekki geta svarað fyrir hönd Norðurlandanna en að Þýskaland myndi kynna sínar aðgerðir í loftslagsmálum, einkum hvaða skref þjóðin hyggist taka í átt að kolefnishlutlausu 2050. Svo ætlaði hún að vísa á ráðherra þess lands þaðan sem spurningin kom, sem sé til föðurhúsanna í vissum skilningi, ruglaðist og taldi að Svíi hefði spurt, en það var Norðmaður. „Erna, vielleicht,“ sagði Merkel: „Erna kannski svarar þessu.“ Og Erna beið ekki boðanna heldur sagðist hvetja fólk til að setja sér háleit markmið í þessum efnum, sagði það nauðsynlegt.