Mjög stór skriða féll úr fjallinu fyrir ofan Reynisfjöru í Mýrdal í nótt og er sjórinn brúnlitur á því svæði þar sem skriðan féll. Lögreglan á Suðurlandi ítrekar að austasti hluti Reynisfjöru er lokaður almenningi.
„Lögreglan á Suðurlandi ítrekar lokun sína á austasta hluta Reynisfjöru en þegar lögregla kannaði svæðið snemma í morgun kom í ljós að mjög stór hluti úr fjallinu hafði þá nýlega fallið í fjöruna og í sjó fram líkt og meðfylgjandi ljósmynd sýnir.
Er sjórinn brúnlitaður á því svæði þar sem skriðan féll. Lögreglan mun kanna málið nánar í dag ásamt sérfræðingum,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar á Suðurlandi.
Lögreglan á Suðurlandi lokaði í gær af austasta hluta Reynisfjöru vegna grjóthruns úr berginu yfir fjörunni. Tveir ferðamenn; karlmaður um tvítugt og barn, höfðu slasast lítillega þegar þau fengu grjót yfir sig úr berginu. Fékk lögreglan einnig ábendingar um að svipað atvik hefði átt sér stað á sunnudag.
„Við erum að reyna að loka þessu betur. Aðstæður eru þannig að við teljum töluverða hrunhættu áfram á meðan við vitum ekki annað,“ segir Björn Ingi Jónsson, verkefnisstjóri almannavarna, í samtali við mbl.is.
„Ofanflóðavakt Veðurstofunnar ætlar að koma hérna og skoða þetta betur hvort það séu fleiri sprungur, þeir meta hvort hætta sé á frekari hruni. Þannig er staðan núna, við erum ekki komin með heildarsýn á þetta og þetta er gífurlegt magn sem hefur fallið.“