Myndar botn vatnsins í 10 tíma

Leit hefst á ný í fyrramálið að manninum sem féll …
Leit hefst á ný í fyrramálið að manninum sem féll í Þingvallavatn. Ljósmynd/Aðsend

Kafbátur verður settur út við Miðfell við Þingvallavatn um klukkan níu í fyrramálið til leitar  líki belg­íska ferðamanns­ins á þeim slóðum þar sem hann er tal­inn hafa fallið í Þing­valla­vatn fyr­ir rúmri viku. Kafbáturinn myndar botninn í alls um 10 klukkustundir og skannar hann með sónartæki og tekur um 50 þúsund ljósmyndir. 

Sérsveit lögreglunnar stýrir aðgerðum en fulltrúar frá fyrirtækinu Gavia, sem á kafbátinn, stýra honum. Einnig verður bátur frá björgunarsveitinni á staðnum og um 2 til 3 björgunarsveitarmenn.  

„Báturinn er forritaður með þeim hætti að hann fer ákveðna leið og kemur upp úr vatninu eftir fimm klukkutíma. Þá er skipt um rafhlöðu og myndakort og svo fer hann aftur af stað í aðra fimm tíma. Þetta verður eiginlega eins og að horfa á málningu þorna, það er að segja ef ekkert kemur upp á,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lög­regl­unn­ar á Suður­landi. 

Sérsveitin sér um að vinna úr gögnunum sem safnast í leiðangrinum. Það gæti tekið einhverja daga því ljósmyndir og sónargögnin verða umfangsmikil, að sögn Odds. 

Síðast var mannsins leitað um helgina í Þingvallavatni. Á föstudaginn síðasta fór sami kafbátur frá Gavia ofan í vatnið í leit að manninum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert