Embætti ríkissaksóknara hefur áfrýjað CLN-málinu svokallaða, sem einnig hefur verið kallað Chesterfield-málið, til Landsréttar. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Sakborningar í málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi lykilstjórnendur hjá Kaupþingi. Þeir voru allir sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í júlí. Kjarninn greindi fyrst frá því í morgun að málinu hefði verið áfrýjað, en um er að ræða mál sem hefur farið fram og aftur í dómskerfinu undanfarin ár.
CLN-málið er eitt af svokölluðum hrunmálum, en í því voru áðurnefndir stjórnendur Kaupþings ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa lánað 508 milljónir evra frá ágúst til október 2008 til tveggja félaga sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche Bank sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings. Sagði saksóknari að markmiðið hefði verið að lækka skuldatryggingaálag bankans.
Fyrsti dómur héraðsdóms í málinu var kveðinn upp árið 2016 og voru þremenningarnir sýknaðir þar. Síðan átti málið að fara til Hæstaréttar en áður en dómstóllinn náði að taka málið fyrir komu fram nýjar upplýsingar um greiðslur Deutsche Bank til þrotabús Kaupþings sem námu stórum hluta þeirrar fjárhæðar sem talin var hafa glatast.
Ógilti því Hæstiréttur fyrri dóm og sendi aftur í hérað, en héraðsdómur vísaði málinu frá. Landsréttur taldi hins vegar að héraðsdómur skyldi taka málið efnislega fyrir og niðurstaðan var sú að þremenningarnir væru sýknir saka. Þeirri niðurstöðu mun embætti ríkissaksóknara þó ekki una og þetta mál mun koma til kasta Landsréttar, sem áður segir.
Íslenska ríkið hefur þurft að greiða á sjötta tug milljóna í málskostnað frá árinu 2016 þegar fyrsti dómur héraðsdóms var kveðinn upp í málinu.