Endurupptökunefnd hafnaði í síðustu viku endurupptökubeiðnum Guðmundar Þórðarsonar og Jóns Þórs Sigurðssonar. Þeir voru báðir dæmdir fyrir stórfelld skattalagabrot; Guðmundur árið 2015 og Jón Þór árið 2013.
Byggðu þeir báðir rökstuðning fyrir endurupptöku mála sinna á dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá árinu 2017. Í þeim dómi komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jón Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni með því að refsa þeim tvisvar efnislega fyrir sömu skattalagabrotin.
Sambærilegar aðstæður voru uppi í málum Jón Þórs og Guðmundar en ríkisskattstjóri hafði með úrskurði endurákvarðað opinber gjöld og lagt 25% álag á vantalda skattstofna áður en dómur var kveðinn upp. Í rökstuðningi sínum vísaði endurupptökunefnd í frávísun Hæstaréttar á máli Jóns Ásgeirs og Tryggva þar sem segir að í íslenskum lögum sé ekki að finna heimild til endurupptöku máls í kjölfar þess að MDE hafi komist að því að brotið hafi verið á Mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum.