Lögreglan á Suðurlandi hefur ákveðið að gera hlé á formlegri leit að belgíska ferðamanninum sem talinn er hafa fallið í Þingvallavatn 10. ágúst. Áfram verður fylgst með vatninu, en komi ekkert nýtt upp verða bakkar þess gengnir að þremur til fjórum vikum liðnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglunnar.
Í dag hefur verið leitað í Þingvallavatni með sérstökum kafbáti sem búinn er sónarbúnaði og myndavél. Leit hans er beint að tveimur fyrirfram skilgreindum svæðum sem skipuleggjendur leitarinnar telja líkleg til árangurs, en svæðið er samanlagt yfir ferkílómetri að stærð og á allt að 80 metra dýpi.
Kafbáturinn siglir eftir fyrirfram gefnu mynstri og tekur hvor reitur fimm klukkustundir í skönnun. Úrvinnsla gagnanna er þá eftir, en ljóst að hún mun taka einhverja daga og er því ekki að vænta frekari frétta af leitaraðgerðunum að sinni.
Þá er til skoðunar hvort nota megi annars konar sónarbúnað við leitina en ekki er tímabært að ræða tímasetningu og umfang slíkra aðgerða að sinni.