Sáttanefnd forsætisráðuneytisins í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hefur afhent ríkisstjórninni skilagrein og er hætt störfum. Sáttaviðræðunum lauk formlega 1. júlí síðastliðinn, í kjölfar þess að bótakrafa var lögð fram fyrir hönd Guðjóns Skarphéðinssonar.
Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars Viðarssonar, hefur lagt fram bótakröfu fyrir hönd skjólstæðings síns. Frá því var greint í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að krafan væri líklega sú hæsta sem lögð hefði verið fram í máli sem varðaði órétt sem einstaklingur hefði verið beittur í sakamáli.
Það staðfestir Arnar Þór í samtali við mbl.is. Hann segist einnig ósáttur með að ákvörðun hafi verið tekin um að leysa upp sáttanefndina, sem stofnuð var síðasta haust.
Arnar Þór segir að ríkið hafi litið á það sem svo að með bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar hafi grundvöllur fyrir sameiginlegri lausn verið brostinn.
„Ég er ósáttur við að það að einn stefni geri það að verkum að ríkið bara bakki alfarið í samningaviðræðum. Hver og einn hlýtur að eiga sinn rétt og það getur ekki verið að einn geti tekið alla hina með sér,“ segir Arnar Þór. Hann segir samningaviðræðunum ekki hafa verið lokið af hálfu annarra.
„Þeim var ekkert lokið, þetta var flautað af bara af því að einn stefnir. Þau ættu að sjá sóma sinn í því að reyna að ná sáttum við hvern og einn, en ekki að blása af þó að einn hætti. Hver og einn á bótarétt, þetta eru mismunandi einstaklingar með mismunandi bótarétt og svo framvegis,“ segir lögmaðurinn, sem telur nærtækt að ætla að sú bótakrafa sem hann lagði fram 1. ágúst síðastliðinn fyrir hönd Kristjáns Viðars sé sú hæsta sem nokkru sinni hafi verið lögð fram hérlendis vegna óréttar í sakamáli.
Varðandi bótakröfuna vill Arnar Þór ekki nefna neina tiltekna upphæð, en segir að hún byggi á sömu grunnnálgun og Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar hefur beitt í vísan sinni til fordæma í máli hinna svokölluðu „Klúbbsmanna“ sem fengu dæmdar bætur upp á 535 þúsund krónur á dag, núvirt, vegna óréttmæts gæsluvarðhalds.
Til viðbótar segir að Arnar að við bætist ýmsir fleiri liðir í kröfunni. Einn þeirra varðar orð Ólafs Jóhannessonar, þáverandi dómsmálaráðherra, sem sagði eftir blaðamannafund þýska rannsóknarlögreglumannsins Karl Shütz árið 1977 að með niðurstöðum þess þýska væri „martröð létt af þjóðinni“. Með þessum orðum hafi sakborningar verið fordæmdir, áður en réttarhöldin fóru fram.