Styrkja félaga sem lenti í bílslysi

Aron Sigurvinsson í búningi Hattar/Hugins.
Aron Sigurvinsson í búningi Hattar/Hugins.

Annað kvöld fer fram leikur Knattspyrnufélagsins Elliða og Ægis á Würth-vellinum í Árbæ, þar sem fé verður safnað til styrktar Aroni Sigurvinssyni, ungum manni sem lenti í alvarlegu bílslysi til móts við Rauðhóla um verslunarmannahelgina.

Aron var tíu daga á gjörgæslu eftir slysið, en er sem betur fer á batavegi. Ljóst er að við tekur langt og strangt endurhæfingarferli sem mun reyna mikið á hann og fjölskyldu hans.

Elliðamenn í samstarfi við Fylki standa að styrktarleiknum. Frítt verður á völlinn, en frjáls framlög vel þegin. Tilboð verða á hamborgurum, sælgæti, gosi og öðrum köldum veigum og í hálfleik fer fram keppni þar sem keppt verður um bíómiða líkt og þekkist á heimaleikjum Fylkis. Allur ágóði af sölunni mun renna til Arons.

Aron er Fylkismaður, en hann lék með Árbæjarliðinu í 2. flokki og spilaði síðan fyrir Elliða árið 2017 áður en hann hélt austur á land og lék bæði fyrir Fjarðabyggð og Hugin í 2. deildinni í fyrra. Í sumar lék hann svo einn leik fyrir sameinað lið Hattar og Hugins í 3. deildinni.

Leikur Elliða og Ægis hefst kl. 19:30 annað kvöld, en um er að ræða leik tveggja efstu liðanna í sínum riðli í 4. deildinni. Segir í tilkynningu frá Elliða að þeim þætti vænt um að sjá sem flesta mæta og styrkja þetta góða málefni.

Þeim sem ekki komast á leikinn en vilja styrkja Aron í baráttunni er bent á bankareikning hans:

Reikningsnúmer: 0315-26-8877
Kennitala: 020798-2549

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert