4,5 milljarða endurbætur dragi úr mengun

Kísílverksmiðjan í Helguvík hefur staðið tóm síðustu misserin. United Silicon …
Kísílverksmiðjan í Helguvík hefur staðið tóm síðustu misserin. United Silicon fór í þrot í ársbyrjun í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi

Endurbætur á kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík, sem áður var í eigu United Silicon, munu draga verulega úr mengun frá verksmiðjunni, þar með talið lyktarmengun í nærliggjandi íbúðabyggð.

Þetta segir í tilkynningu frá Stakksbergi, verksmiðjueiganda, en byggt er á niðurstöðum loftdreifilíkans verkfræðistofunnar Vatnaskila sem falið var að meta áhrif endurbóta á loftgæði. Segir þar að endurbætur séu í samræmi við skilyrði sem Umhverfisstofnun setti er hún samþykkti úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna.

Eftir stendur að heildarlosun Íslands á gróðurhúsalofttegundum eykst um 10% þegar og ef verksmiðjan verður gangsett að nýju, ef miðað er við fulla framleiðslugetu, að því er fram kom í umfjöllun RÚV í apríl, en þar er byggt á svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn fréttastofu. Áætlað er að verksmiðjan losi alls um 550.000 tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið árlega.

Í tilkynningu Stakkbergs kemur fram að fjárfesting í endurbótum nemi 4,5 milljörðum króna. Þær fela í sér að 52 metra hár skortsteinn verði reistur við hlið síuhúss og allur útblástur frá verksmiðjunni leiddur þar í gegn. Í síuhúsinu verði ryk síað frá lofti áður en því er blásið út um skorstein. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka