„Landsbyggðin hefur setið eftir“

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur hrundið í framkvæmd tillögum til að styrkja húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni.

Þess er vænst að fyrstu tillögur, þar á meðal að breytingar á lögum og reglugerðum, til að styrkja húsnæðismarkaðinn á landsbyggðinni verði komnar til framkvæmda á haustdögum.

„Landsbyggðin hefur setið eftir þegar kemur að uppbyggingu í húsnæðismálum. Í ljósi jákvæðra athugasemda við tillögum að úrbótum munum við einhenda okkur í koma fram með nýjar reglugerðir og lagafrumvörp til að innleiða þær að fullu enda um mikilvægt hagsmunamál að ræða,” segir Ásmundur Einar í tilkynningu.

Jákvæðar umsagnir í samráðsgátt

Tillögurnar voru upphaflega lagðar fram í ríkisstjórn til kynningar í lok maí en í lok júlí voru þær birtar í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningi og öllum hagsmunaaðilum gafst tækifæri til að gefa álit.

Þær umsagnir sem bárust eru allar jákvæðar í garð tillagnanna, að því er segir í tilkynningunni en einnig komu fram í þeim nokkrar gagnlegar ábendingar um þætti sem má skoða betur.

Samband íslenskra sveitarfélaga hrósaði tillögunum og nefndi sérstaklega þá jákvæðu nálgun sem unnið hefur verið eftir í svokölluðu landsbyggðarverkefni sem félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður settu af stað á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert