Lífsgæði jukust í kjölfar styttingu vinnuvikunnar og starfsfólki leið betur bæði beima og í vinnu, 12 mánuðum eftir að henni var hrint í framkvæmd. Þetta eru niðurstöður rannsóknar félagsmálaráðuneytisins á tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma hjá ríkinu. Skýrsla um efnið var gefin út í dag. Niðurstaðan rímar við samskonar könnun Reykjavíkurborgar.
Skýrslan byggir á eigindlegri rannsókn þar sem gögnum er safnað með rýnihópum og viðtölum á þeim vinnustöðum sem tóku þátt í verkefninu vorin 2017 og 2018. Að mati stjórnenda jókst framleiðni, fólk vann hraðar, tók styttri pásur og upplifði sem svo að meira væri um samstarf starfsmanna á milli.
Þá kom fram í viðtölum við starfsfólk að tíminn eftir vinnu nýttist betur í að sinna fjölskyldu, vinum og tómstundum. Sérstök ánægja var meðal þeirra sem fengu styttan vinnutíma á föstudögum, og fannst fólki helgarnar lengjast við það að ljúka vinnu klukkan tvö þá daga.
Segir í tilkynningu að einstæðir foreldrar hafi sagst eiga auðveldara með að sameina vinnu og einkalíf, halda dagskipulagi og sinna börnum. Þá finnist þeim þeir vera orkumeiri að vinnudegi loknum.