„Mikið áfall fyrir greinina“

Kjúklingabúið Rangárbú í Landssveit er í einangrun. Mynd úr safni.
Kjúklingabúið Rangárbú í Landssveit er í einangrun. Mynd úr safni. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Þetta er mikið áfall fyrir greinina,“ segir Birgitte Brugger, dýralæknir alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun, um tvo veirusjúkdóma sem greindust í fyrsta skipti hér á landi í kjúklingum á Rangárbúinu á Hólavöllum í Landsveit í lok júlí. Búið er í einangrun. 

Markmiðið er að útrýma báðum þessum veirusjúkdómum, Gumboro veiki og innlyksa lifrarbólgu. „Við vonum það. Við stöndum betur en mörg önnur lönd því það er langt á milli kjúklingabúa. Það hjálpar okkur,“ segir Birgitte spurð hvort raunhæft sé að ná að uppræta veiruna.

Ekki er vitað með hvaða hætti veiran barst hingað til lands og á kjúklingabúið. Unnið er að því að rannsaka smitleiðina en ekki er víst að hún finnist, að sögn Birgitte. Um 10 þúsund kjúklingar hafa drepist vegna veirunnar.

„Engin hætta er á því að veiran berist í menn eða dýr

Á Rangárbúinu er kjúklingaeldi um 50 þúsund fugla sem hýstir eru í fjórum húsum. Nú er búið að slátra kjúklingum í þremur þeirra og unnið er að því að slátra úr fjórða húsinu. Það verður gert í næstu viku. Það er gert undir eftirliti Matvælastofnunar. 

„Engin hætta er á því að veiran berist í menn eða dýr,“ útskýrir Birgitte. Gumboro veiran er bráðsmitandi og veldur miklum usla alls staðar þar sem alifuglarækt er stunduð. Víða er bólusett gegn henni. Báðir þessir veirusjúkdómar eru landlægir í flestum löndum þar sem alifuglar eru ræktaðir. 

Reyna að halda í sérstöðu Íslands   

„Við viljum reyna að halda þessari sérstöðu okkar hér á landi og reynum allt hvað við getum að uppræta þetta,“ segir Birgitte. Hún segist vongóð um að það takist sérstaklega þar sem kjúklingabúið er einangrað og vel staðsett hvað varðar mögulegar smitleiðir til annarra kjúklingabúa.   

Þegar öllum kjúklingunum hefur verið slátrað á búinu verða öll húsin þrifin og sótthreinsuð. Alifuglabændur eru minntir á að tryggja smitvarnir. Báðar veirurnar eru lífseigar, ónæmar fyrir ákveðnum sótthreinsiefnum og geta lifað lengi í umhverfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert