Lögreglan á Suðurnesjum rannsakaði 42 kynferðisbrot, þar af átta nauðganir, á síðasta ári. Slík brot „voru nokkuð mörg“ að því er fram kemur í ársskýrslu embættisins. Rannsókn kynferðisbrotamálanna er í forgangi hjá embættinu og stefnt er að því að ljúka henni á 60 dögum.
Í slíkri vinnu er sífellt umfangsmeiri rannsókn á „rafrænum gagnavörslum af ýmsu tagi svo sem tölvum, farsímum, minnislyklum og gögnum sem eru geymd í „skýjum“,“ að því er segir í skýrslunni.
50 heimilisofbeldismál komu upp á árinu. Bent er á að í einu máli kunna að vera skráð mörg brot til dæmis ef sakborningar eru margir. „Ljóst er að þörfin fyrir markviss afskipti og vandaða málsmeðferð lögreglu í heimilisofbeldismálum er skýr,“ segir enn fremur í skýrslunni.
Eitt rán var til rannsóknar. Tengdist það uppgjöri í fíkniefnaviðskiptum þar sem þolandi var stunginn með hnífi í læri og fjármunir sem hann hafði meðferðis voru teknir af honum. Gerendur voru handteknir, málið telst upplýst og bíður nú meðferðar hjá dómstólum.
100 líkamsárásarmál voru skráð í lögreglukerfið en árið áður voru þau 110 talsins. Af þessum 100 málum voru 77 skráð sem minni háttar líkamsárás og 23 skráð sem meiri háttar líkamsárás. Í meiri háttar líkamsárásum eru áverkarnir alvarlegir, t.d. beinbrot, vopnum beitt eða sparkað er í höfuð einstaklings.
Á árinu 2018 voru skráð 9 stórfelld fíkniefnamál. Í tengslum við rannsókn þessara mála voru haldlögð 17,345 kg af sterkum fíkniefnum. Þar af voru 12,485 kg af kókaíni og 1.750 ml af amfetamínvökva, Úr þessu magni af amfetamínvökva er hægt að framleiða 4,8 kg af amfetamíni í neysluskömmtum samkvæmt rannsóknarstofu Háskóla Íslands. Einnig var lagt hald á 4,859 kg af hassi.
Verkefnum flugstöðvardeildar í mörgum málaflokkum fjölgaði á milli ára 2017 og 2018. Athygli vekur gífurleg aukning í fjölda frávísana á landamærunum. Frávísanir voru alls 161 árið 2018, en 54 árið á undan. Aukningin er því um 200%.
Árið varð metár í fölsunarmálum í flugstöðinni sjálfri en auk þess varð gríðarleg fjölgun á beiðnum frá öðrum embættum og stofnunum. Samtals 98 skilríkjamál komu upp á árinu.
Á árinu 2018 komu upp hjá lögreglunni á Suðurnesjum nítján mál sem flokka má undir netglæpi. Ellefu mál sem varða fjársvik á netinu voru tilkynnt, meðal annars á bland.is eða á hinum ýmsu Facebook-síðum. Eitt mál varðar áreiti á samfélagsmiðlum og jafnframt komu upp fjögur mál sem varða dreifingu á nektarmyndum.