„Eins og flestum mun vera ljóst þá er það að missa barn eitthvað það þungbærasta sem hægt er að ímynda sér. Eitthvað sem enginn vill og enginn ætti að þurfa að lenda í. En lifi maður það af sjálfur verður það kannski til þess að maður kann betur að meta það sem vel hefur tekist til og reynir að beina augunum að því. Þetta gerir mann líka sjálfstæðari gagnvart alls konar vandræðum og veseni sem búið er til af mönnum. Bæði að láta það ekki trufla sig eins mikið og ella eða beinlínis leiða það hjá sér. Af hverju eigum við að vera að velta okkur upp úr heimatilbúnum vandræðum og veseni? Er ekki nóg að hafa hitt?“
Þetta segir Þórarinn Eldjárn rithöfundur í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins en þau Unnur Ólafsdóttir, eiginkona hans, hafa ekki aðeins misst einn son, heldur tvo. Þá Kristján og Ólaf en hvorugur þeirra náði þrítugu.
Þórarinn varð sjötugur í vikunni og lítur af því tilefni yfir farinn veg og skyggnist til framtíðar í Sunnudagsblaðinu.
Fáir núlifandi menn hafa betra vald á íslenskri tungu en Þórarinn. Þar má þjóðin á margan hátt gera betur, svo sem í málfræðinni. Hann varar menn þó við að stíga of fast til jarðar.
„Tökum nafnið mitt sem dæmi. Það er með einu n-i í þolfalli en kemur sjaldan þannig núorðið. Eigi að síður er ég ekki þeirrar skoðunar að eyða eigi yfirgengilegu púðri í að leiðrétta smávillur í íslenskukennslu. Það má aldrei verða aðalatriðið. Þetta má ekki verða þannig að þeir sem ekki eru vel mæltir þori ekki lengur að stynja upp orði.“
Að sögn Þórarins er það misskilningur að allt í sambandi við málvöndun sé séríslenskt fyrirbæri. „Í öllum vönduðum blöðum úti í heimi, þar sem ég þekki til, eru dálkar þar sem fólk er að velta þessum hlutum fyrir sér. Hvernig segi ég hitt og hvernig segi ég þetta? Má þar nefna Þýskaland, Svíþjóð, Danmörku og Frakkland sem beinlínis ýtir undir stolt vegna tungumálsins.“
Annað sterkt höfundareinkenni hjá Þórarni er húmor. Gott dæmi um það er ljóðið Djúpa laugin í nýju bókinni:
Í djúpa laug að dýfa sér
dirfska lítil þykir mér.
Í stærri háska stefna þaug
sem stinga sér í grunna laug.
Þegar maður hugsar út í það er það auðvitað mun meiri háski að stinga sér í grunna laug en djúpa.
Þórarinn gengst væntanlega við því að vera húmoristi.
„Já, ég viðurkenni það hiklaust og skammast mín ekkert fyrir það. Ríkur þáttur í því sem ég skrifa er húmorísk afstaða. Mér er ljóst að oft þykir það ekki fínt en það skiptir mig engu máli. Án þess að bera mig saman við okkar helstu jöfra, svo sem Halldór Laxness og Jónas Hallgrímsson, þá var húmor afskaplega ríkur í þeirra verkum.“
– Hefurðu alltaf átt auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á tilverunni?
„Já, bæði það og ekki síður að leika mér með tungumálið. Það hefur alltaf freistað mín. Þess utan held ég að flestir lesendur vilji ekki að bækur séu leiðinlegar. Að því sögðu þá þurfa alvöruþrungin verk alls ekki að vera leiðinleg. Síðan eru auðvitað til húmoristar sem eru leiðinlegir.“
– Svo fylgir auðvitað öllu gríni alvara!
„Það er alveg rétt. Stundum getur þetta verið undirferli eða lymska af hálfu höfundarins; hann lokkar fólk á vettvang og lætur svo höggið ríða af. Fólk hlær og hlær en svelgist svo skyndilega á hlátrinum.“
– Er þetta meðvitað?
„Ekki meðvitað þannig að ég setjist niður og ætli að verða rosalega fyndinn. En þetta er partur af minni aðferð sem höfundur. Ég hef líka ort mikið af alvarlegum ljóðum og það að slík ljóð komi frá manni sem fólk er vanara að sé með kómík eða leik í farteskinu gerir þau mögulega beittari. Þau skera sig frá hinu efninu en eru samt af sama meiði.“
Nánar er rætt við Þórarin í Sunnudagsblaðinu.