Það hefur verið annasamt það sem af er kvöldi hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þrjú brunaútköll og mikið álag vegna slysa í miðbæ Reykjavíkur. Þetta segir varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Tilkynnt var um eld í bíl um hálf átta í kvöld við afleggjara að Þrengslum. Eiganda bílsins tókst að slökkva eldinn sjálfur og var því slökkvibíll afturkallaður.
Klukkan korter yfir átta var tilkynnt um að eldur hafi kviknað þegar verið var að sjóða pappa á þak einbýlishúss í Mosfellsbæ. Greiðlega gekk að ná stjórn á eldinum, að sögn varðstjóra. Voru slökkviliðsmenn á tveimur bílum slökkviliðsins að störfum í um einn og hálfan klukkutíma.
Um tuttugu mínútur yfir átta barst slökkviliðinu tilkynning um að hafi kviknað í bakaraofni. Vann slökkviliðið að reykræstingu húsnæðisins.
Auk útkallanna hefur verið talsvert af verkefnum fyrir sjúkrabíla í miðbæ Reykjavíkur. Segir varðstjóri útköllin vera mest vegna slysa á fólki. Mikill fjöldi fólks er nú í miðbænum í tengslum við Menningarnótt.