„Við erum bara í hæstu hæðum. Þetta hefur gengið alveg ótrúlega. Ótrúlega mikið af fólki, sólin að skína á okkur og mikið af viðburðum út um allt. Þannig að við erum alveg ótrúlega sátt og glöð,“ segir Björg Jónsdóttir, verkefnisstjóri menningarnætur, í samtali við mbl.is.
Mikið hefur verið um að vera í miðborginni í dag og er óhætt að að segja að eitthvað hefur verið í boði fyrir hvern smekk. Menningarnótt er orðin ein stærsta árlega hátíð landsins.
„Laugavegurinn er stappaður, margt fólk úti á Granda, á Hlemm og uppi í Þingholtum, bara alstaðar. Raðir í alla matarvagna. Allir ótrúlega kátir og glaðir. Sólin gerir líklega alla svona glaða,“ segir Björg.
Spurð hvort allt skipulag hafi gengið samkvæmt áætlun svarar hún: „Það hefur ekkert klikkað hingað til og höldum bara áfram að vona það besta.“
„Mér finnst vera – þó ég viti það ekki nákvæmlega – að það sé svipað og áður ef ekki fjölmennara í ár. Það er bara fólk út um allt. Það er dreifðara en áður hefur verið,“ svarar Björg spurð um fjölda gesta.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir mikinn fjölda vera saman kominn í miðbæ Reykjavíkur og að enn sé að fjölga.
„Það er erill hjá okkur en allt gengið talsvert vel,“ segir lögreglustjórinn. Spurð hvernig þetta leggst í mannskapinn svarar hún: „Það er bara mjög gott hljóð í þeim, enda mikil gleði í fólki og gott verður.“