„Þetta var minni háttar sem betur fer. Engin slys og vélin skemmdist lítið,“ segir Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis. Kennsluvél á vegum akademíunnar hlekktist á í lendingu á flugvellinum á Flúðum í morgun.
Nemandinn var einn í sólóflugvélinni sem ber einkennisstafina TF-KFF og var að æfa lendingar. Vélinni hlekkist á með þeim afleiðingum að hún rann út af flugbrautinni og hreyfillinn rakst í jörðina. Gott veður, logn og bjart, var á Flúðum þegar atvikið átti sér stað.
„Viðbragðsáætlun okkar var virkjuð eins og vera ber í öllum alvarlegum flugatvikum,“ segir Rúnar. Rannsóknarnefnd flugslysa hefur verið tilkynnt um atvikið.
Vélin er af gerðinni Diamond DA20-C1 Eclipse.